16.9.05

Fyrsta vers

Hef ég nú bloggið. Er þetta ekki fín aðferð miðaldra einyrkja sem vinnur heima allan daginn til að verða ekki vitlaus?

Hér var 11 ára afmæli í dag. Furðulegt hvað 12-13 stúlkur á þessum aldri geta verið hávaðasamar og mikið vesen á þeim. Svo er þessi hópur miklu verri en hópur hinnar dótturinnar sem er þó ekki nema ári eldri. Þær dömur sitja bara og mala við borðið eins og konur á mínum aldri og gleyma stundum alveg að fara í leiki eða vera með hasar.

Það er líka sérkapítuli það sem er á borðum í svona afmælum. Freistaðist til að fá mér sneið af Dominos-pitsu og súkkulaðiköku (mína). Þetta er hræðilega óhollt, finn það á öllum meltingarveginum. Eins gott að ég keypti árskort í Þrekhúsinu í dag. Hvað ætli sú stöð sé búin að ganga undir mörgum nöfnum til þessa?

Mikið óskaplega finnst skoffíninu Hannesi Hólmsteini leiðinlegt að það skuli ekki allir hafa sagt hallelúja þegar Davíð hætti. Grein hans í Fréttablaðinu í dag er bæði grátleg og hlægileg. Í rauninni finnst mér það einn versti bletturinn á Davíð að hann skuli hafa liðið þessu fyrirbæri að halda upp þessari áratugalöngu gagnrýnsilausu lofgerðarrollu um sig.

Það er svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki haft mig í að fara á bókmenntahátíð en dauðlangar á Borgarlistasafnið, sýninguna um Reykjavík þar sem maður má koma með hugmyndir. Hef heyrt fyrirlestur hjá henni Ágústu sem stýrir sýningunni og lesið grein eftir hana. Þetta er bráðskörp ung kona með skemmtilega sýn og á auðvelt með að hrífa fólk með sér. Ekki svona embættisgráni eins og mér sýnast flestir R-listamenn vera orðnir (ef þeir hafa ekki alltaf verið það).

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home