14.6.06

Að rækta garðinn sinn

Það þykir víst merki um hátt þroskastig mannsins þegar hans mesta yndi verður dútl í garðinum (Birtingur sneri sér að því eftir allt bröltið ef ég man rétt, og eitthvað svipað fór Steinn bóndi á Steinum að gera þegar hann sneri heim úr sinni reisu). Þessu hef ég ekki enn náð, en stefni að því.

Í gær fór ég sem sé loks út í garð og sáði salati og skellti sumarblómum í potta o.s.frv. Auðvitað gætti ég þess líka að njóta veðurblíðunnar og ilmsins og útsýnisins yfir grasflötina. Hlynurinn nýtur sín sem aldrei fyrr eftir að Orkuveitan tók garðinn í gegn fyrir okkur í fyrra sumar.

Þá þurfti ég að dást að túlípönunum sem sumir skarta enn sínu fegursta (þökk sé kaldri og rysjóttri tíð í "sumar"). Ég er alveg að ná tökum á þeirri ræktun; það eina sem hefur klikkað hjá mér er litavalið á einum stað, það fer ekki nógu vel að hafa bleikfjólubláa og skærrauða túlípana saman.

Bóndarósin er komin vel á veg, með 10 knúppa þetta árið! Kannski var samt toppurinn þarna í gærkvöldi þegar ég var að klippa "óþekktarangana" af reynitrénu; ilmurinn af blómunum á trénu var himneskur.


(Er þetta ekki bara nokkuð gott, Kalli?)

Web Counter

1 Comments:

At 14 júní, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Jú þetta er bara mjög gott Helga. Farin að gera garðinn frægan og ritstíflan brostin svo kannski er von á flóði?
Kv.
Kalli

 

Skrifa ummæli

<< Home