21.9.05

Sjónvarpsþáttapersónur og aðrir nánustu aðstandendur

Yngri dóttir mín er 11 ára í dag og í dag byrjaði Bráðavaktin. Þá minntist ég þess að ég var heima með hana nýfædda þegar ég horfði fyrst á Bráðavaktina. Ég er sem sé búin að þekkja þetta fólk í 11 ár! Það er auðvitað alveg hræðilegt, en þetta verða eins og vinir manns (við mæðgur grétum t.d. heil ósköp þegar þessi með gleraugun dó fyrir nokkrum árum og hneyksluðumst yfir því að George Cloony eða hvað Doug annars heitir skyldi ekki vera við jarðarförina). Sumir þola ekki svona væmna langhunda, maðurinn minn fer t.d. oft í bíltúr meðan þetta gengur yfir.

En er annars furða að maður verði nátengdur sjónvarpspersónum, hvað umgengst maður vini sína marga klukkutíma á viku, nær það alltaf heilum tíma?

Samt finnst mér miklu heilbrigðara að heillast af fólki sem er að leika eitthvað í sjónvarpi en af fólki sem situr og les eitthvað upphátt og spyr um eitthvað (fréttamenn t.d.) eða segir ég er frábær þú ert frábær (Gísli Marteinn t.d.) - ÞAÐ er bilun.

Ég læt Beðmál í borginni bíða betri tíma.

Web Counter

1 Comments:

At 22 september, 2005, Blogger Þóra said...

Hvernig er það, ertu viss um að Doug Ross hafi ekki verið við jarðarförina? Mér sýndist glitta í hann síðast þegar ég sá þetta. Hef notið þeirra forréttinda að hafa aðgang að dönsku stöðinni TV3 sem endursýnir þættina alltaf seinni partinn. Veit ekki hvað þeir eru búnir að láta þættina rúlla oft í gegn, að minnsta kosti tvisvar sem ég hef séð. En allavega, ég sá dr. Green deyja í þriðja skipti bara núna í ágúst og held svei mér þá að Doug og Carol hafi verið bæði viðstödd útförina þrátt fyrir að vera hætt í þáttunum. Verst að TV3 er dottin út af kaplinum hjá okkur hérna á ströndinni en ég fæ smá skammt þegar ég fer út í október.
Verð nú að láta einhverja flugferðina núna á næstu mánuðum standa á þannig að ég geti komið við hjá ykkur á miðvikudagskvöldi. Mömmu fannst væmnin of mikil þegar Carter og Kem voru að dreifa öskunni af barninu sínu í gær, hún bara skilur þetta ekki konan.

Ykkar frænka,
Þóra

 

Skrifa ummæli

<< Home