30.6.06

Að hjóla...

er frábært, ekki síst í Austurríki þar sem ég var í þessari frábæru hópferð sem ég kom heim úr aðfaranótt miðvikudags. Það var hlýtt (heitt), rigndi bara á kvöldin þessu fáu skipti sem þurfti að rigna og var bara hreint út sagt dásamlegt að líða eftir skógarstígunum með þennan litla hjólatöskufarangur, einn (ég læt ekki undan þessum helvítis vitleysiskellingum sem rugla saman málfræði og félagsfræði og hefðu í þessu tilviki og flestum öðrum heimtað hér "ein") í heiminum en samt í hóp. Koma svo á ágætis hótel á kvöldin, skola af sér svitann og borða vel. Að vísu viðurkenni ég að Austurríkismenn eru fullmikið fyrir raspið, og matseðlar á hádegisstöðum sem við stoppuðum á voru heldur einsleitir (Salat mit Putenstreifen var einkennisréttur ferðarinnar) en allt hitt vegur upp á móti.

Við hjóluðum líka inn í Slóveníu og þar, strax á landamærunum, fékk maður (ekki kona) svona líka frábæran smokkfisk! Hann bauðst aftur daginn eftir á frábæru veitingahúsi, steiktur, með hvítlauk, við Steina heilluðumst. Ég hallast að því að Slóvenar séu framar í matarmenningu en Austurríkismenn eftir þetta!

Það bregður svo við eftir ferðina að ég er full hollustulöngunar, hrúga grænmeti í ofnréttina, háma í mig ber og ávexti o.s.frv. Annaðhvort er þetta þörf eftir allt raspið eða það að líkaminn hefur endurnærst svo vel eftir áreynsluna og stressleysið að hann vill bara eitthvað hollt og gott. Ég hallast að því síðartalda!

Mæli með hjólreiðum í sumarfríinu fyrir alla!

Web Counter

1 Comments:

At 01 júlí, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Var einmitt að undrast um þig. Velkomin á klakann aftur.
Ég mæli líka með hjólreiðum, helst allt árið (eins og berin).
Verðum í bandi.

 

Skrifa ummæli

<< Home