29.5.06

30 ára stúdent

Á laugardaginn fór ég austur á Laugarvatn að fagna 30 ára stúdentsafmæli. Þetta var mjög ánægjuleg ferð og gaman að hitta gömlu félagana. Að minnsta kosti einn var þarna sem ég hef ekki séð frá því þetta ágæta vor, 1976. Öll höfum við breyst og þroskast, það má kannski segja að þegar við hittumst eftir svona langan tíma séum við í aðra röndina að kynnast nýju fólki. Sumum kynntist maður svo sem ekki mikið í gamla daga heldur, svo þeir eru enn nýrri. Nokkrir makar voru þarna líka, ágætisfólk. Það var létt yfir kvöldverðinum, lítið um formlegar ræður og eins gott því nóg var af slíku við langa brautskráningarathöfnina. Ég tók ekki áskorun um að fara og segja minnsta kosti brandara, sem margir gerðu, og misgóða, en var að bræða með mér hvort ég ætti að láta flakka söguna um vinnufélagana þrjá sem komu til vinnu á mánudegi og sögðu hver öðrum frá því hvað þeir hefðu verið að gera um helgina. Sá tvítugi sagðist hafa hitt stelpu og verið í stöðugum ástaleikjum alla helgina. Félagi hans fimmtugur sagðist hafa haft það enn betra, borðað góðan mat með konu sinni og drukkið enn betra vín með. "Þetta er nú ekkert miðað við það sem ég upplifði," sagði sá sjötugi "ég hafði hægðir báða dagana!"

Þetta hefði nú átt nokkuð vel við með alla þessa árganga, en kannski ekki yfir borðum ...

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home