Ó-skipulag
Já, eftir þetta langa mæðu er ég enn við sama heygarðshornið, skipulag Reykjavíkur eða öllu heldur óskipulag. Ég þurfti nauðsynlega að fara inn á Fenjasvæðið í síðustu viku. Þangað fer ég auðvitað ekki nema mikið liggi við og því var orðið æði langt síðan ég kom þarna síðast. Gatnakerfið þarna er ansi kyndugt. Mér skilst að þetta hafi orðið verslunarhverfi alveg óvart og þess vegna sé þessi litli munur á gangstéttum, götum og bílastæðum. Vandratað fyrir heimakæran einyrkja ættaðan úr sveit. Viðhaldi gatnakerfisins ef svo má kalla hefur lítið verið sinnt. Þarna eru svakalegar bungur þar sem jarðvegur hefur risið og inn á milli djúpar gjótur (þessar á planinu fyrir utan Bónus minna á gervigíga eða eitthvað slíkt). Svo eru stór flæmi sem aldrei virðast hafa fengið slitlag og eru komin með sjálfstætt vatna- og þurrlendissvæði, ef ekki vistkerfi. En viti menn, hér og hvar í þessum óskapnaði öllum hossast maður svo upp á splunkuný vandlega steinlögð hringtorg, eins og ættuð úr öðrum heimi. Kannski þetta séu geim-hringtorg sem hafa komið hingað óvart, rétt eins og allar búðirnar!Kórónan á þetta sköpunarverk er svo Skeiðarvogs-mislægu-ljósagatnamótin, sem ég þarf alltaf að keyra tvisvar ef ég hætti mér út á þau, fyrst til að fatta hvernig á að fara að og svo aftur þegar ég er búin að fatta það.
Kannski að þetta sé skýringin á allri umferðinni í Reykjavík, menn þora ekki að stoppa því þá gætu þeir gleymt hvernig á að keyra inn á allt þetta nýja mislæga dótarí?
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home