20.4.06

Í sinni par(ad)ís

Enn einu sinni í þessum ágætasta landshluta allra.

Eins og Ólöf segir, þá á hver sinn Hrútafjörð, þetta segir þessi franska dama þegar hún leggur íann til Frans þar sem hún er næstum fædd og mikið uppalin, sem sé frönsk að háfu alla vega. Þetta sýnir kannski hversu mikla uppreisn æru sá hér títtræddi Hrúafjörður hefur fengið að undanförnu. Enginn þarf að básúna ágæti Frakklands, er það? Jæja, í dag að minnsta kosti hefur Hrútafjörður sannarlega sýnt sína bestu hlið, sunnanandvari/logn og sjö stiga hiti. Já, það hlaut að vera, sagði fólkið í sundlauginni í morgun þegar við birtumst, þið komið með sumarið, síðasta góða veðrið var þegar þið komuð fyrir mánuði.

Þegar ég gekk morgungönguna í morgun heyrði ég í mávum og sá, sá líka gæsir og, síðast en ekki síst: heyrði í lóunni. Næst þegar ég kem býst ég við þessari mögnuðu hljómkviðu allra fugla: lóu, spóa, hrossagauks, stelks, tjalds niðri við ána og samleik maríuerlu og þrastar heima við hús. Mikið hlakka ég til!

GLEÐILEGT SUMAR!

Web Counter

2 Comments:

At 21 apríl, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Múhú, gleðilegt sumar!
Nú hefur Frans breyst í Breizh og þar er nú Hrútafjörðurinn minn, í skugga gámsins græna.
Hrútafjarðarsamanburðarfræði þykja mér annars býsna skemmtileg.

 
At 21 apríl, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Maður fær bara bullandi heimþrá. Þessi orð þín rifja upp fyrir manni hve blessuð sunnanáttin gat gjörsamlega "umpólað" öllu lífi bæði manna og sauðkinda á köldu vori.
Ástarkveðjur í sveitasæluna.

 

Skrifa ummæli

<< Home