27.2.06

Kvef og Cash

Man satt að segja ekki hvenær ég fékk kvef síðast, hvort ég slapp alveg 2005, það er a.m.k. mjög langt síðan. En það lagði mig sem sé undir sig núna um helgina. Líklega hef ég smitast af Steinu sem er búin að vera með þetta síðan fyrir hina helgina.

Ég er skárri en í gær, svo líklega tekur þetta fljótt af núna (skal ekkert fjasa um breytta hegðun kvefs með aldrinum).

Aldrei slíku vant fórum við hjónin í bíó um helgina. Þessi fáheyrði atburður varð á föstudagskvöldið, í Smárabíó lúxus, meðan saumó Stínu fjölmennti á Idol. Myndin sem varð fyrir valinu, eða öllu heldur ÉG valdi, var auðvitað Walk the Line. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég er einlægur aðdáandi JC, svo sem enginn sérfræðingur, en mér fannst þetta mjög vel gert. Kannski léku lögin samt best í myndinni, og gaman hvernig tókst að láta mann upplifa tónleika eins og maður væri á staðnum. Mæli hiklaust með þessari mynd. Kannski ég skreppi bara fljótlega á myndina um fréttamanninn sem þorði að vera á móti McCarthy, og svo á Capote í framhaldi af því. Þá er þetta orðinn góður ársskammtur.

Web Counter

1 Comments:

At 27 febrúar, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Get tekið undir þetta með myndina. Við fórum þegar Birna kom í bæinn um daginn og skemmtum okkur ágætlega. Á laugardaginn fórum við systur ásamt mömmu norður á Hvammstanga og þvílík dýrð sem blasti við þegar við komum norður af heiðinni, spegilsléttur sjór eins langt og augað eygði,ekki ský á himni, Strandafjöllin (meira að segja Kálfatindar segir Elsa) blöstu við í allri sinni fegurð. Logn og blíða allan daginn!!!!

 

Skrifa ummæli

<< Home