2.2.06

Janúarblíða nú og áður

Það þurfti svo sem ekki fréttir til að minna mig á að janúar, og mánuðirnir á undan honum, fyrir tíu árum var enn hlýrri en núna. Þetta var þegar ég vann á þeirri skammlífu sjónvarsstöð Stöð 3. Þá keyrði ég ekki bíl, bjó á Þórsgötu og Stöðin var í húsi verslunarinnar. Ég gekk oft heim á kvöldin og man alltaf hvað blettirnir í görðunum í Norðurmýrinni voru lýsandi grænir í myrkrinu í desember og janúar. Sumir voru þá með hrakspár um sumarið, svona eins og okkar Íslendinga er siður því okkur finnst við ekki eiga skilið gott veður, en það var alveg frábært líka.

Sjónvarpsstöðin fór verr. Hún varð aldrei alvöru og svo komu vondir menn og keyptu hana til að leggja hana niður. Ég man að þeir voru næstum allir svartklæddir, frá hvirfli til ilja, og fluttu með sér stemmningu sem minnti á niðurlag Íslandsklukkunnar.

Eins og í flestum görðum í Reykjavík um þessar mundir vaxa túlípanar og páskaliljur hér vel. Því miður týndu vetrargosar og krókusar mjög tölunni þegar menn Alfreðs komu og ötuðust í garðinum í sumar, þeir væru aldeilis í stuði núna ef þeir hefðu lifað. En Alfreðungar gerðu garð og stétt miklu fínni en áður og það verður svei mér gaman að spóka sig hér úti í sumar.

(Í eina skiptið sem ég hef komið til Minnesóta, og seinna skiptið sem ég kom til Bandaríkjanna, var það í janúar og frostið fór í rúm 20 stig, gjóla líka. Þá fréttist af 18 stiga hita á Dalatanga.)

Web Counter

2 Comments:

At 06 febrúar, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Jújú, ég held bara að ég þiggi hádegisverðarboð. Hvað með miðvikudag 8. feb.? Hringi á þriðjudaginn til að tékka...

 
At 07 febrúar, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Ó það var nú líf og fjör á Stöð 3, í skjóli Kringlunnar. Þá var Kringlumýrarbrautin ekki alveg eins illfær gangandi vegfarendum og nú er orðið. Já, þeir svartklæddu ruddust inn óforvarendis og tróðu á grænum sprotum... svona er það í minningunni. Í sömu minningunni var einmitt alltaf gott veður.

 

Skrifa ummæli

<< Home