31.1.06

Heimilisamboð, guðfræðinemi og táfýla

Það er orðið töluvert langt síðan síðast. Hér eru því sundurleitir molar sem hafa safnast upp.

Fyrrnefndur kjöthitamælir hefur bæst við (ónauðsynleg) heimilisamboð. Og ekki orð um það meir.

Ég opna stundum útvarpið, yfirleitt rás 1, og þá gerist það alveg ískyggilega oft að fyrrverandi fastur starfsmaður en núverandi guðfræðinemi er þar að tala við kennarana sína eða eitthvert fólk sem var á ráðstefu með honum og kennurunum hans. Þetta hefur reyndar gengið svona til í 6-8 ár, svei mér þá! Það er svo sem allt í lagi að fjölmiðlamenn fari á námskeið eða í skóla og viðri örlítið nýju þekkinguna þegar þeir koma til baka. Þetta gerði t.d. Jón Ásgeir Sigurðsson þegar hann fór í MBA-nám en það tók blessunarlega fljótt af. Sjálfsagt hafa einhverjir fleiri dagskrárgerðarmenn farið á sjálfsstyrkingarnámskeið, ítölskunámskeið, teikninámskeið og svo mætti áfram telja, og fundið þar einhverja matarholu. En að þræða gangana í aðalbyggingu Háskólans með upptökutæki dag eftir dag, viku eftir viku og ár eftir ár - það er of mikið! Enda eru umræðuefnin sum hver orðin dálítið sértæk og jafnvel úrelt ef ekki ótrúleg - svona eins og við værum enn að spekúlera í því í alvöru hvort drekar hafi ekki örugglega verið til og séu enn.

Annars er ég ósköp andlaus núna og búin að gleyma mestöllu nöldrinu - kannski það stafi af verkefninu sem ég hef glímt við að undanförnu og var að ljúka í dag - það er ágætis bæklingur um táfýlu og aðra fótakvilla og meðul við þeim. Bara þó nokkuð fróðlegur.

Web Counter

3 Comments:

At 31 janúar, 2006, Blogger Helga said...

Úr því minnst er á ekki bráðgagnleg heimilistæki, þá held ég að apparatið sem Ó.P. fékk eitt sinn í jólagjöf, rafknúinn grænmetisflysjunarhnífur, sé með þeim sniðugri. Eða skyldi hún hafa fregnir af einhverju enn betra?

 
At 01 febrúar, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Það er nú þetta með gagnsemi ýmissa heimilistækja. Ég fékk t.d. vöfflujárn í brúðargjöf frá foreldrum þínum og notaði það heilmikið þar til það gaf sig fyrir nokkrum árum. Þá fannst mér að ég þyrfti endilega að endurnýja og fjárfesti í nýju, en ég játa að sú fjárfesting hefur ekki skilað sér samt er hægt að kaupa nánast tilbúið vöffludeig. Svo hef ég lengi verið að hugsa um rafmagnsdósaopnara en mínum nánustu þykir að opnun á fjórum dósum á ári að meðaltali kalli ekki á slíka fjárfestingu. En ég er mjög hrifin af þessum mæli sem þú fékkst þér, eitthvað sem ég verð að skoða.
Kveðja,
Ína

 
At 07 febrúar, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Var búin að steingleyma rammaxgrammmetisflysjaranum!

 

Skrifa ummæli

<< Home