16.2.06

Grænmetisrétturinn minn

Hann Reynir Þór frændi minn (betur þekktur núna sem Reynir reynir) var svo sætur að koma í heimsókn um daginn og var bara ánægður með grænmetisréttinn sem ég bauð honum. Ég þakka honum sömuleiðis fyrir að koma. Einhverjir (kannski bara Elsa frænka) hafa falast eftir uppskriftinni. Hér er hún, afar frjálsleg eins og þið sjáið:

Góður bútur af hvítkáli
1 meðalgulrófa
Ca. 3 gulrætur
1 laukur
1 - 2 kartöflur (sleppi þeim stundum)
1 - 2 hvítlauksgeirar
Eitthvert annað grænmeti að vild, bara mátulegur skammtur á pönnu eða handa þeim sem eiga að borða)

Grænmetið er rifið í matvinnsluvél eða slíku áhaldi, ekkert mjög fínt. Sett á pönnu með smáolíu og steikt dálitla stund. Þá er sett út í dós af niðursoðnum tómötum og lítil dós af tómatmauki (puré). Svo má setja eins og einn grænmetistening og eitthvert gott ítalskt krydd eins og oregano og svartan pipar líka. Ég set oft líka tarragon. Þegar þetta er búið að malla dálitla stund á pönnunni og samlagast tek ég ost og sker í teninga og strái yfir allt saman og set svo lok á pönnuna og leyfi þessu að krauma í a.m.k. hálftíma. Set líka stundum á þessu stigi sveppi og súkkíní í teningum.

Mér finnst voðagott að hafa bankabygg frá Eymundi með þessu.

Stundum geri ég "austurlenska útgáfu" af réttinum. Þá nota ég karrí og/eða eitthvert annað gott austurlenskt krydd, sleppi tómatmaukinu og dreg kannski aðeins úr tómötunum en set undir lokin hálfa til eina dós af kókosmjólk. Smekkur ræður hvort ostteningar eru hafðir út á þessa útgáfu (mér finnst það ágætt, en það er kannski ekki mjög austurlenskt).

Stundum bý ég til stóran skammt og á út vikuna; Steina fær sér stundum af þessu en annar sit ég ein að krásinni.

Web Counter

2 Comments:

At 17 febrúar, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Kærar þakkir fyrir skjót viðbrögð þetta er þægileg uppskrift og að ostinum slepptum fellur gersamlega að mínum einfalda smekk! hér áður hefði hann nú fengið að fljóta með og mikið af honum.
Bestu kveðjur frá Elsu frænku

 
At 21 febrúar, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Vil endilega mæla aftur með þessum rétti! Og sérstaklega benda á bankabyggið! Bestu kveðjur!

 

Skrifa ummæli

<< Home