12.2.06

Sveitasæla

Vorum fyrir norðan um helgina í þessu einstaka logni og blíðu sem svo oft ríkir í Hrútafirði (á þessum árstíma a.m.k.). Þetta var mjög hefðbundin ferð, farið á föstudegi og komið síðdegis í dag. Ég gekk þarna mínar gömlu slóðir, hringinn gamla veginn út að Fjarðarhornshliði og nýja veginn til baka. Fjarðarhornshúsið hækkar óðfluga; það verður gaman að líta þangað þegar húsið verður fullklætt og komið járn á þakið.

Hefur allt Melafólk tekið eftir hríslunni undir ristinni í Fjarðarhornshliðinu? Þetta er held ég einhver víðitegund og hefur verið þarna í þó nokkur ár, lifir en vex að sjálfsögðu ekki upp fyrir ristina. Þetta finnst mér svolítið eins og líf þorra bænda; skrimta en stanslaust valtað yfir þá (og kannski grind yfir líka) svo þeir eiga ekki neina von um vöxt og viðgang hér í heimi.

Í gærkvöld var svo toppur ferðarinnar, hátíðarkvöldverðurinn, lambalæri og súkkulaðimús sem Ásgerður vinkona Stínu minnar bjó til. Ásgerður virðist vera prýðisefni í kokk. Svo var Irish coffee úr glösunum sem ég keypti í IKEA í tilefni ferðarinnar. Borðið var skreytt að venju, nú í rauðu og gulgrænu (servíettur, kerti og smá blómavírsföndur), og á það lagðir ódýrir ofnir renningar (ljósdrappaðir eða "natúr") sem ég keypti í Rúmfatalagernum. Þetta kom mjög vel út.

Sumum kann að þykja þetta heldur mikið brölt - taka sig til með heilmikinn farangur og keyra þetta til að plampa nokkra kílómetra og borða mat sem alveg eins væri hægt að elda heima hjá sér - og jafnvel betur. Ég reyni ekki að útskýra það nákvæmlega, það er bara svo gaman að hlakka til, skipta um umhverfi, koma sér fyrir þar og vera með svolítið tilstand - og síðast en ekki síst, að sjá gömlu sveitina sína enn einu sinni og finna hana undir fótunum.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home