14.2.06

Sumarfiðringur og holdafar

Það fór um mig einhver sumarfiðringur í dag svo ég hentist út að hlaupa kl. hálf þrjú og hljóp í hálftíma eða þar til snatttíminn hófst. Þetta hélt áfram þannig að ég dró fram gömlu hvítu sumarbuxurnar þegar ég loksins fór í þokkaleg föt síðdegis (heimavinnandi einyrkjar geta unnið í hverju sem er). Þær passa ágætlega takk, það vel að ég get ekki tosað þær niður af mér án þess að renna frá eins og ég gat reyndar um nokkurra vikna skeið eftir snarpt átak í ræktinni um árið. Mikið hugsum við konurnar annars um holdafarið, ég á varla það símtal við systur mínar að það beri ekki á góma. Hins vegar hef ég aldrei rætt þetta við bræður mína! Ég reyni samt að taka þessi mál ekki of hátíðlega, og taka létt ýmsum breytingum sem verða með aldrinum. Hafið þið t.d., sem komin eru á virðulegan aldur, prófað að standa fyrir framan spegil og halla vel undir flatt? Maður verður eitthvað svo undarlega búlduleitur á þeirri kinninni sem niður snýr. Getur verið skemmtun litlum börnum, en varla öðrum.

Web Counter

1 Comments:

At 15 febrúar, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

það er viðeigandi í ljósi umræðunnar að spyrja hvort uppskriftin af grænmetisréttinum sem Reynsi fékk hjá þér fáist ekki birt við tækifæri. Þegar mataræðið er eins og hjá mér veitir ekki af að fá ferskar hugmyndir! Bestu kveðjur frá Elsu frænku

 

Skrifa ummæli

<< Home