Þegar herinn fer...
Eiginlega veit ég ekki hvað ég á að skrifa um þessa dagana:Hvað ég er fegin að herinn er að fara?
Hvað ég hef mikið að gera, það er ýmist í ökla eða eyra hjá einyrkjum.
Hvað ég vildi að Andri Snær yrði með í að hjálpa Árna Sigf. og ríkisstjórninni að gera allt betra á Suðurnesjum þegar herinn er farinn.
Svo má líka setja fram hugmynd - held að ég hafi ekki gert það áður á þessum vettvangi. Hún er svona: Aðferð til að betra brotamenn í fangelsum sem felst í því að útvarpa yfir þá fallegum góðum bókmenntum og sálfræðilega hollri tónlist, myrkranna á milli, svo mætti setja eitthvað huggulegt á veggina líka. Flestir smákrimmar eru krimmar af því að það var aldrei lesið fyrir þá og þeir hafa fátt eða ekkert lesið sjálfir, fyrir utan svo aðrar bágar aðstæður í bernsku. Eins og margoft hefur verið haldið fram hlýtur það að auka nokkuð víðsýni manna og skilning að hafa lesið mikið - það getur verið á við kynni af her manns (þá á ég ekki við her í eiginlegri merkingu, slík kynni eru einhæf og misholl).
Sjálfsagt hefur þetta verið prófað einhvers staðar, en kannski ekki nógu lengi, nema það hafi gengið of vel! Kannski mætti prófa þetta í fangelsinu sem þá dreymir nú um að fá á Suðurnesjum?
4 Comments:
Elsku frænka, þetta með fangana ýtti við mér, nú þekki ég nokkuð vel einn smákrimma og móður hans og systur mjög vel og þessi lýsing á alls ekki við þar umræddur (að vísu fyrrverandi) fangi mjög vel greindur, víðlesinn og fróður en orðinn skemmdur af neyslu. Einmitt þessi maður og kynni af ýmsu í kringum hann hefur sýnt mér fram á hversu margt getur farið úrskeiðis á lífsleiðinni. Bestu kveðjur í bæinn, verður fjölmennt í sveitinni um páskana? Elsa
Blessuð frænka, þetta verður mikið fyrirmyndarríki þegar allir draumarnir rætast. Nú þegar verð á hlutabréfum er talað niður ætlar allt um koll að keyra, áður var allt í ljómanum og sómanum þegar verð á öllu var kjaftað upp en enginn veit hvaða verðmæti lágu að baki allri veislunni. En af því að ég man flesta afmælisdaga í fjölskyldunni þá veit ég að hún Stína á afmæli og sendi henni bestu hamingjuóskir í tilefni dagsins. Ína frænka
Ferlegt hvað hún Ína getur munað um fólk, hef hana grunaða um að lesa þjóðskrána spjaldanna á milli, en ég nýti mér fróðleikinn og sendi líka afmæliskveju.
Elsa frænka
Sem ég segi, það ætti að leggja niður hagstofuna, manntalið, þjóðskrána og hvað þetta heitir og sleppa Ínu í þetta. Ódýrara og öruggara! Takk fyrir kveðjurnar, frænkur, og athugasemdirnar.
Skrifa ummæli
<< Home