3.3.06

Hrein snilld

Það finnst mér nærtækasta orðalagið til að lýsa þeirri ágætu bók sem heitir Draumalandið Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð, eftir Andra Snæ Magnason. Hún kemur út í næstu eða þarnæstu viku og ég var svo heppin að fá að lesa eina próförk.

Manstu Alþýðubókina, Bréf til Láru, Villta svani? Bættu þá þessari við. Ég er heldur önugur lesandi og sein til að hrífast í seinni tíð. Þess vegna er svo frábært að fá bók sem opnar augun, segir það sem manni hafði svo sem dottið í hug, en aldrei gert neitt með ... á svo miklu flottari og skynsamlegri hátt en maður hefði nokkurn tíma gert sjálfur. Hún er svolítið eins og þeir bræður Þorsteinn, Vilmundur og Þorvaldur Gylfasynir hefðu sest niður og skrifað bók saman.

Það sem um er fjallað: Hvernig menn fá snjallar hugmyndir, stundum margir í senn á sama tíma; um bændur og landbúnað á Íslandi, um herinn á Íslandi og víðar og það hvað her og hermenn eru íhaldssamir í eðli sínu; um stóriðjustefnu á Íslandi og afleiðingar hennar. Og ekkert svartagallsraus heldur trú á skynsemi, menntun og allt það fallegasta í manninum. Eins og nærri má geta fara núlifandi stjórnmálamenn ekki vel út úr því. Ég rausa ekki meira, kaupið bara bókina þegar hún kemur út!

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home