1.4.08

Sagan í hring

Æ, hvað sagan endurtekur sig. Greinilegast er það kannski af tískunni, stutt, sítt, meðal, aftur stutt; reyndar þetta allt saman síðustu árin. Maður hefur upplifað minnst tvær stretsbuxnabylgjur, þrjár lopapeysu-, tvær pallíettu-, eina axlapúða- (mamma tvær, svo líklega koma þeir bráðum aftur) og svona mætti lengi telja. Svo eru það innréttingabylgjurnar. Hvað hafa komið margar hvítar? Brúnar? Pluss og kögur og svo naumhyggjan. Svo eru það bylgjur sem ráðast af efnahagsástandinu. Ég held t.d. að eldhúsinnréttingin mín sé að komast í tísku í þriðja sinn. Þá tel ég fyrst þegar hún var smíðuð. Þegar við fluttum hingað '96 var pínulítil kreppa og þá þótti voðafínt að vera með upprunalega innréttingu. Ég var ánægð með þá tísku því þannig slapp ég við umstangið og fjárútlátin við að láta skipta og valkvíðann samfara því að ákveða hvernig innréttingin skyldi vera. Svo, allt í einu, var kreppan búin og allir fóru að henda og brjóta og rífa sem aldrei fyrr. En nú er víst aftur komin kreppa og þá er enn einu sinni kominn tími þessarar ágætu innréttingar.

Yfirhalning baðherbergisins verður þó ekki umflúin, hvað sem allri krepputísku líður.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home