10.3.08

Ýmsir merkir áfangar ...

... hafa náðst hér undanfarna daga, svo sem stórafmæli húsbóndans á laugardaginn, sem fór vel fram og var skemmtilegt. Haldiði svo ekki að arkitektinn hafi komið hér presíst kl. 14.00 í gær með "fagteikningar" sínar eða hvað það nú heitir, nákvæmlega eins og hann lofaði fyrr í vikunni, að vísu eftir að hafa dregið skil oft og lengi á þessu og ýmsu öðru sem títtnefndu risi viðvíkur.

Það voru því fegin hjón, en kvíðin, sem gengu með teikningasúpuna inn til byggingarfulltrúa í dag. En viti menn; móttökurnar voru allt aðrar en ég bjóst við, allt að því vinsamlegar, ef ekki kumpánlegar. Það var svolítið eins og við værum komin í nýjan flokk viðskipta"vina", þeirra sem ætla að hafa það af, búin að læra á kerfið, ekki lengur talin algjör fífl eða eitthvað til að skeyta skapinu á.

Það verður þó að viðurkennast að við vorum sérlega vel undirbúin; með kvittanir fyrir því sem við vorum búin að borga og ýmsa aðra pappíra. Þegar eignaskiptayfirlýsingin var nefnd hafði ég tromp uppi í erminni og sýndi forsíðu vitlausu eignaskiptayfirlýsingarinnar sem byggingarfulltrúaembættið stimplaði TVISVAR, þótt hún væri öll í rugli. Aðalkonan í afgreiðslunni varð eins og smjör við það og ég varð svo ánægð að ég komst á trúnaðarstigið og sagði konunni að mig hefði dreymt um daginn að ég ætlaði að fara að byggja heilt hús, var komin með öll tilskilin leyfi en áttaði mig þá á því að ég var ekki búin að fá lóð undir það. Velti fyrir mér Garðabæ og Hrútafirði og hallaðist frekar að síðari staðnum. Þetta með staðsetninguna nennti ég reyndar ekki að segja konunni, enda fólk farið að hlusta með andakt á söguna. Konan virtist alveg skilja líðan mína og átta sig á því að það er mjög eðlilegt að mann dreymi svona drauma ef ekki verri meðan maður á allt sitt undir skipulagsyfirvöldum Reykjavíkur.

Samskiptum okkar lauk á léttu nótunum; hún minnti okkur á að koma sem fyrst með staðfestingu á byggingarstjóra og svo þyrfti að tilgreina alla iðnaðarmenn og fá undirskrift þeirra. Ég taldi upp: smiður, rafvirki, pípari ... En múrari, sagði hún þá. Ég sagðist tæplega þurfa múrara nema kannski til að leggja flísar á baðið, þetta væri allt úr timbri, hvort ég myndi þurfa múrara til að byggja timburhús. Kannski sökkulinn, sagði hún. Hann var nú gerður fyrir rúmum fimmtíu árum, sagði ég og þar með féllst konan á að kannski bráðlægi ekki á múrara.

En það væri svo sem alveg eftir því að ég þyrfti einn slíkan.

Web Counter

1 Comments:

At 14 mars, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Já svona er að eiga við skipulagsyfirvöld. Hún Ragna á Laugarbóli ætti að vita af þessu. Sjá frétt á bb.is

 

Skrifa ummæli

<< Home