Gamla Melahúsið 3 (baðið)
Baðið var á hægri hönd á ganginum, við hliðina á norðuríherberginu. Það var ekki stórt og þegar ég man fyrst eftir var þarna bara klósett og vaskur, ekkert baðker! Það er eins og mig minni að við austurvegginn hafi verið kommóða fyrst. Hún varð að fara þegar baðkerið loksins kom. Fyrir endanum var handlaugin, við notuðum orðið "vaskur" bara yfir eldhúsfyrirbærið. Þetta var fín postulínshandlaug, made in Tcheckoslovakia (vona að stafsetningin sé rétt), stóð á henni. Það rifjaðist einmitt upp fyrir mér þegar járntjaldið hrundi og það var farið að tala um hvað Tékkar voru fínir handverksmenn og hönnuðir á árum áður. Líklega hefur handlaugin verið partur af góðum vöruskiptadíl Sambandsins um 1950. Á handlauginni var fyrst í stað bara einn krani, af augljósri ástæðu, það var ekki "heitt vatn í krönum" fyrstu ár hússins. Undir handlauginni var frumstæður skápur með drullusokk og einhverju dóti.Í norðurenda baðherergisins var gluggi hátt á veggnum. Mig minnir að þar hafi pabbi geymt rakvélina sína og raksápuna og -kústinn. Gólfið bá baðinu var mjög sérstakt fyrstu árin. Það var bert steingólf en ótrúlega slétt, svo að það glansaði og fremur auðvelt að skúra það. Seinna held ég að það hafi fengið flísameðhöndlun Ingólfs Péturssonar eins og eldhúsið og norðuríherbergið.
Með heitavatninu kom baðkerið. Það var mikil bylting. Nokkrum árum seinna var klætt í kringum kerið og veggina neðst með gulyrjóttum víníldúk og veggirnir málaðir ljósgulir. Ég held að Rögnvaldur á Borðeyri hafi séð um þá framkvæmd, eins og endurbæturnar á vatnslögninni. Það var sérkennileg framkvæmd sem færði okkur á Melum 1 ekki á undan okkar samtíð og ekki heldur aftur fyrir hana, frekar út fyrir hana. Rögnvaldur fékk nefnilega pabba til þess með alkunnum sannfæringarkrafti sínum að samþykkja að leiða heitt vatn í klósettkassann! "Ég gegði þetta í kauffélaginu á Bogðeygi," sagði hann "og það eg allt annað líf síðan, það eg gjögsamlega hætt að sagga, og allt annað að líf sitja á því. Spugðu baga Jónas (hann var kaupfélagsstjórinn)." Þetta dugði til að sannfæra pabba og í nokkurn tíma var heitt vatn í klósettkassanum hjá okkur. Fljótlega komu þó í ljós nokkrir gallar á þessu fyrirkomulagi. Í fyrsta lagi fylgdi þessu öllu megnari og verri lykt en gamla laginu. (Lýsi ekki nákvæmlega upplifuninni ef margir þurftu að gera stórt í röð.) Þá virtist klósettkassinn og tilheyrandi búnaður ekki hafa verið hannaður fyrir þetta hitastig vatnsins því fljótlega fóru skinnur og annað dót að morkna með óhjákvæmilegum leka. Svo kostaði líka sitt að hita vatnið upp með olíu. Fljótlega var því aftur svissað yfir á kalda vatnið.
Ekkert kaupfélagsfólk á Borðeyri kannaðist við heitavatnsklósettið þó að þráfaldlega væri spurt.
Skápurinn á ganginum skagaði inn á baðið svo að stutt bil var á milli veggja þar sem gengið var inn. Ég gerði mér það til skemmtunar stundum að stilla mér upp með rassinn við annan vegginn og iljarnar á hinum og fikra mig svo smám saman upp, jafnvel upp undir loft. Einhvern tíma var mér sagt að þetta gerðu rottur og minkar sem reynt væri að veiða í þröngar röragildrur, því yrði að passa að hafa rörin mátulega víð. Mig minnir að Krummi frændi hafi stundað þetta klifur líka.
Uppi undir loftinu var dálítll "efri skápur" sem pabbi átti. Þar geymdi hann peningaveskið sitt og hin og þessi skjöl, rollubækur og (smyglað) Makkintos sem hann keypti stundum ef hann fór í skipavinnu (uppskipun) á Borðeyri. Þá sjaldan við fórum eitthvað, áður en við fórum að vinna sjálf fyrir peningum (sem var reyndar snemma), þurftum við að biðja hann um pening og þá var náð í stól og farið í skápinn og krakaðir peningar úr veksinu, gjarnan með því fororði að þetta væri nú óttalegt bruðl og vitleysa.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home