29.9.07

Svið (ekki ætlað fólki á jurtafæði eða nútímateprum sem skammast sín fyrir íslenskan mat að fornu)

Fyrir nokkrum árum, þegar Siggi og Lilja bjuggu enn á Melum, skruppum við norður um helgi að haustlagi. Veðrið var óskaplega gott á laugardagskvöldið svo við löbbuðum út með stelpurnar og ég notaði tækifærið til að benda á merkilega staði, svo sem haughúsþakið sem var rennibrautin okkar, Bænhústóttina, þar sem þeir sem nenntu stunduðu horna- og leggjabúskap, lansalinginn þar sem við Krummi hentum niður lýsisflöskunum, fjóshlöðuna þar sem ég handleggsbrotnaði og fleira. Þar sem við vorum þarna á stjákli heyrði ég allt í einu hvin og svo fann ég kunnuglegan ilm í loftinu. Ég var svolitla stund að átta mig en þetta fór ekki milli mála; hér var einhver að svíða. Við gengum á lyktina og hljóðið og þá stóð Lilja þarna með ótal hausa á bárujárnsplötum og mundaði gastækið af mikilli fimi. Hún bauð okkur svo í sviðaveislu daginn eftir.

Ég man þegar mamma var að svíða í gamla daga, sérstaklega kindalappir. Mig minnir að hún hafi oftast verið við þessa iðju við stöku húsin, gömlu fjárhúsin sem nú eru löngu horfin og okkur þóttu alltaf svolítið skuggaleg, jafnvel um hásumar. Ég held að Þóra frænka hafi helst ekki viljað ganga þar fram hjá opnum dyrum, en hún var líka einstaklega viðkvæm, kitlaði til dæmis heil ósköp án þess að komið væri við hana - en það er nú önnur saga. Jæja, mamma fór alltaf í verstu ræfla sem hún gat fundið þegar hún ætlaði að svíða, t.d. aflóga vinnugalla, setti á sig vinnuvettlinga o.s.frv. og varð mjög vígaleg. Ég þykist muna að hún hafi í fyrstu sviðið á hlóðum, þá líklega með kolum eins og voru notuð í gömlu eldavélina. Áhrifamest var auðvitað þegar hún glóhitaði teina (líklega steypustyrktarjárn) og sveið með þeim vel og vandlega milli klaufanna. Þá gaus upp mikill reykur sem fylgdi megn (og góð) lykt. Sjálfum klaufunum fletti hún af þegar löppin var fullsviðin.

Þegar sviðamennskan var búin var soðinn fullur pottur af löppum og krökkunum sem vildu af hinum bæjunum var yfirleitt boðið - að minnsta kosti ef þetta var fyrsta soðning þetta haustið. Það var gaman að borða lappir en ekki gat maður nú borðað mikið af þeim, fitan og "límið" fullmikið til þess. Þegar hins vegar lappirnar voru orðnar að súru fótasultunni hennar mömmu var þetta með betri mat sem maður smakkaði (hefur verið lýst í fyrri bloggfærslu).

Í haust fylltist ég sviðaþrá sem loks fékk útrás í gærkvöldi. Þetta var gamalkunnug reynsla: óskaplega gott smakkið upp úr pottinum þegar þau voru að verða tilbúin, tungan frábær, hitt kjötið af neðri kjálkanum ágætt en flökurleiki fór að gera vart við sig þegar ég gerði atlögu að hnakkaspikinu. Svo að þetta yrði fullkomin hausthátíð í gamla stílnum hafði ég sagósætsúpu með sveskjum og rúsínum í eftirrétt. Hún var að sjálfsögðu gerð úr krækiberjasaft úr berjum frá Melum. Mjög góð, með miklum rjóma. Það skal tekið fram að við hjónin komumst ágætlega frá þessari máltíð, eldri heimasætan dró sig í hlé og sagðist ekki vera svöng, en sú yngri tók nokkuð hraustlega til matar síns.

Veit einhver hvar hægt er að fá sviðalappir nú til dags?

Web Counter

3 Comments:

At 01 október, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Ég fæ vatn í munninn þegar minnst er á sviðalappir og ég held að þær séu gjörsamlega ófáanlegar í dag. Spurði fyrir nokkrum árum einhvern sem til þekkti og fékk þá að vita að það mætti ekki taka lappirnar heim úr sláturhúsinu og vel á minnst er ekki líka bannað að taka ósviðna hausa? A.m.k. held ég að það sé þannig í þeim húsum sem hafa svokallaða vottun Evrópusambandsins. Það var heilmikill vandi að svíða lappirnar, en sultan sem var gerð úr þeim var sælgæti, miklu betri en úr hausunum að mér fannst.
Nú ertu búin að kveikja hjá mér löngun í ný svið og ég sé að ég verð að ná mér í kjamma. Býð kannski einhverjum að njóta þess með mér um helgina annað hvort heima eða á Gilsbakka.
Annars vorum við þar um helgina í rjómablíðu eins og hún getur verið best á haustin. Á laugardaginn var logn og 13°C fram eftir degi en súldaði svolítið um kvöldið. Við komum svo heim um miðjan daginn í gær og þá var farið að þykkna upp en hlýtt og yndislegt veður.
Bestu kveðjur frá Ínu

 
At 09 október, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Kæra frænka.
Ég mátti til með að láta þig vita að ég frétti í gær að það væri hægt að kaupa sviðalappir í Versluninni Rangá í Skipasundi.
Ég var boðin ásamt foreldrum mínum í þessa dýrindis sviðasultu hjá Möttu og Ingimar og hafði húsbóndinn búið hana til. Annars vorum við Elsa á Gilsbakka um helgina, veðrið lék við okkur eins og vanalega og við fórum yfir að Fossi og horfðum á þegar nýtt hús var híft upp með krana og sett á grunninn.
Kveðja,
Ína

 
At 19 janúar, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Eitthvað eigum við Þóra frænka sameiginlegt - ég hef alltaf verið mjög kitlinn, og myndi líklega finna fyrir því yfir hafið ef einhver mundaði hendurnar í kitlstöðu!
Annars fékk ég nánast enn meira áfall yfir því að rúsínum og sveskjum hafi verið bætt i grautinn góða - enda með fóbíu fyrir þurrkuðum ávöxtum!

Og síðan verð ég að minnast á það að Ólafur Oddsson íslenskukennari í MR hefur enn þvílíkt tangarhald á mér að ég get bara ekki sætt mig við að sagt sé "Ég (eða einhver annar í nefnifalli) var boðinn í veislu!" þrátt fyrir að þetta sé hefð í móðurættinni sem þykir jú með þokkalegra íslenskufólki. Ó.O. sagði nefnilega á sínum tíma að maður gæti verið boðinn og búinn til einhvers en manni væri boðið í veislu...
En nóg um það!

 

Skrifa ummæli

<< Home