4.9.07

Þetta þokast

Stundum finnst mér fólk vera svolítið óþolinmótt og svartsýnt á jafnréttið. Þá rifja ég ýmislegt upp í huganum (eða jafnvel upphátt ef einhver er til að hlusta):

  1. Mamma átti ekki peningaveski þegar ég var krakki.
  2. Við fengum mjög sjaldan egg þegar ég var krakki því peningarnir fyrir eggin sem hún seldi úr þessu fáu hænum voru einu sjálfstæðu tekjurnar hennar mömmu.
  3. Það þótti mikið undur, ef ekki argasta óréttlæti, þegar Elladís á Melum fór að vinna í sláturhúsinu á Borðeyri og það á karlmannskaupi (=sama og karlarnir).
  4. Ég lærði aldrei smíðar.
  5. Kennari sem ég var með í Reykjaskóla hélt því fram að tíðablóð væri alls ekki blóð heldur eitthvað allt annað og ófínna.
  6. Þessi sami kennari fullyrti að einn maður gæti fræðilega ekki nauðgað einni konu.
  7. Í Menntaskólanum á Laugarvatni borguðu stelpur minna í mötuneytið en strákar. (Býst við að svo sé ekki lengur en það er nú hálfgerð afturför.)
  8. Alla þessa einu meðgöngu mömmu sem ég man eftir (þá var ég á ellefta ári) minntist hún ekki á það einu orði að hún ætti von á barni.
  9. Við stelpurnar vöskuðum upp. Gústi bróðir "hjálpaði" einu sinni til með því að "herma eftir uppþvottavél" en þá var hann nýkominn af sundnámskeiði í Reykjaskóla og hafði séð slíka vél þar.
  10. Ég lærði hvorki á dráttarvél né jeppa þótt ég væri alin upp í sveit.

Web Counter

6 Comments:

At 05 september, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Sæl systir.
Ó, já enn þokaðist áfram í jafnréttisátt á Melum. Hún Didda litla systir fékk að læra á traktor, reyndar eftir töluvert suð af hennar hálfu. Ætli hún sé þá ekki eina Melakonan sem hefur keyrt traktor á Melalandi. Eða hvað segið þið kæru systur og frænkur?
Kveðjur frá traktorstjóranum á Ísafirði.

 
At 06 september, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Kæru frænkur, ég er elst af ykkur öllum og fékk að keyra traktor og jeppann. Ætli það hafi verið mín vegna sem aðrar systur og frænkur fengu ekki að keyra?? En ég man eftir endalausum hringkeyrslum að rifja bæði á jeppa og traktor. Svo þegar röðin kom að Ínu var svo stutt í Krumma. Og þó að sjón hans væri eins og hún var, þá var það sennilega betri kostur!!! Það var mikið tuðað út af þessu öllu en það hrein nú ekki á körlunum.
Kveðjur frá Elsu frænku.

 
At 06 september, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Ég tek undir með þér Helga mín að margt hefur mátt vera öðruvísi. Það væri gaman að vita hvort fæðið á RSK hafi verið dýrara hjá strákunum. Ég held að kaupið í sláturhúsinu hafi farið eftir aldri en ekki kyni líklega miðað við 16 ára og ég man eftir að þeir sem voru í fláningu voru einu mennirnir sem voru í akkorði og urðu svo alveg vitlausir þegar kom stífla einhvers staðar og það varð að hægja á!
Strákarnir á Melum voru ekki í inniverkum, bjuggu ekki um rúm, þvoðu ekki upp og ég er mjög efins um að þeir hafi kunnað að strauja þegar þeir fóru að heiman (Himmi, Gústi og Krummi voru svo heppnir að straufríu nælonskyrturnar voru alls ráðandi). Það þótti hins vegar sjálfsagt að við gerðum ýmislegt úti við heyskap og annað, nema við áttum ekki að keyra eða snerta á vélunum.
Tengdapabbi heitinn gaf mér fyrir bílprófi 1976 og ég man að pabba var ekki rótt þegar ég kom í fyrsta skipti akandi norður með báða krakkana (kom á móti mér upp á Laxárdalsheiði) en engan Eggert við stýrið.
Hlakka til að sjá ykkur.
Kveðjur frá Ínu.

 
At 06 september, 2007, Blogger Þóra said...

Sæl kæra frænka,
Gaman að lesa þetta, jafnréttið þokast greinilega eitthvað áleiðis. Ég steig aldrei upp í dráttarvél á Melum, hvorki sem bílstjóri né farþegi, veit ekki hvernig það var með hina krakkana í "þriðju kynslóðinni". En ég keyrði samt traktor í fyrsta skipti þegar ég var um sex ára aldurinn hjá afa á Jaðri og ég þurfti ekkert að suða um það. Nú skil ég líka betur lætin í pabba þegar hann tekur út úr uppþvottavélinni, það er eins og allur heimurinn eigi að heyra hvað hann er að gera. Kannski situr eftir í honum minningin um uppvaskslausa bernsku.

Með kveðju,
Þóra

 
At 19 janúar, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Nú er ég jú mikill femínisti - segi það frekar en jafnréttissinni þar sem ég er í raun fylgjandi misrétti til að vinna á meira misrétti. EN... einhverra hluta vegna var mér nú aldrei treyst til að keyra traktor þrátt fyrir að vera elsti strákurinn í minnsti kynslóð... og ekki var slæmri sjón fyrir að fara hjá mér! En kannske það hafi verið eitthvað annað... híhí

Og ég fékk ekki að velja sauma í unglingadeild í Hólminum í unglingadeild 1986-1988 og neyddist til að halda uppi spjallþáttum a la Oprah Winfrey í smíðatímum í tvo vetur!

 
At 15 janúar, 2009, Anonymous Nafnlaus said...

Sæl Helga

Ég hef verið að lesa pistlana þína um Melar og haft gaman af.
Ég var í sveit á sumrin hjá Jóni föður þínum 1978-1980.

Ég man mjög vel eftir Diddu og hennar fyrstu skrefum á traktornum.
Hún gaf okkur strákunum ekkert eftir í þeim málum eða öðrum!

kv.
Ísleifur Gíslason

 

Skrifa ummæli

<< Home