23.7.07

Af fóstrum, skunkum (og þýðingum)

Eldri heimasætan hér á bæ varð snemma bókhneigð og hafði bæði gaman af að hlusta á sögur og spinna upp sjálf. Við bulluðum stundum ýmislegt upp úr okkur hvor fyrir aðra. Einu sinni sagði hún mér mikla átakasögu sem gerðist í leikskóla, ég man ekki þráðinn en hitt man ég, hvað ég varð hissa þegar þar kom sögu að fóstrurnar "glottu illyrmislega". Bæði var að það var tæplega í takt við hlutverk fóstranna í sögunni að öðru leyti, og svo vissi ég ekki hvar í dauðanum barnið hefði lært þetta orð. Svo var ég að taka til nokkrum vikum seinna og krakaði þá undan sófanum litla Disney-bók um Pétur Pan. Bókin hafði greinilega legið þarna nokkra hríð og þegar ég fletti henni rann upp fyrir mér ljós: þarna glotti sem sé Kobbi krókur illyrmislega á æsilegu augnabliki í sögunni (í þýðingu Guðna Kolbeinssonar).

Lion King var í miklu uppáhaldi um þetta leyti og stundum bullaði ég okkur til gamans sögu um lítinn ljónshvolp sem hélt á veiðar en lenti óvart á skunki sem gusaði á hann og þegar hann kom heim tóku öll ljónin fyrir nefið (það gerðum við líka) og sögðu: "lentir þú í skunkabæli?" Stundum þótti henni þetta of tragískt og breytti þá þræðinum á þann veg að skunkurinn var af tegundinni "ilmvatnsskunkur" sem "gusaði góðri gusu".

Þetta hvort tveggja rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var beðin að benda á góðan þýðanda smábarnabókaflokks sem á að fara að gefa út, og benti auðvitað á Guðna sem þýðir vel, vandlega og er líka fljótur að því. Svo sakar ekki hvernig hann sáir stundum um leið góðum orðum í ungar sálir.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home