Gilsbakki
Það var óskaplega gaman að vera með frændfólkinu og fleiri Hrútfirðingum á formlegri vígsluhátíð húss þeirra Elsu og Ínu á Melum núna á laugardaginn. Því miður komust ekki allir á hátíðina, meðal annars vegna sjötugsafmælis Lilju á Melum, en henni var boðið í ferð til Vestmannaeyja í tilefni af því. Henni er hér með óskað til hamingju og beðist afsökunar á fálæti vegna þessa merkisatburðar en ég lofa að bæta henni það upp fljótlega.Skemmtilegast af öllu var kannski að hitta hann Jónas frænda í sinni gömlu sveit í þessu nýja og glæsilega húsi. Hann lék við hvern sinn fingur og rifjaði upp gamlar veislur í sveitinni, tilsvör og tiktúrur gamalla sveitunga og fleira og fleira. Og óskaplega var gamli maðurinn ánægður með þetta framtak dætra sinna. Þær fólu honum að velja nafnið. Gilsbakki heitir húsið og er að sjálfsögðu dregið af staðarvalinu, á bakka Ormsárgils, en vísar einnig, og á það lagði hann áherslu, til uppruna okkar því að móðir hans Elísabet, amma okkar Melakrakkanna, ólst upp á Gilsbakka í Miðdölum.
Það sakaði svo ekki að veðrið lék við hátíðargesti, glaðasólskin og léttur norðanandvari fram eftir degi en blankalogn þegar kvöldaði. Í gærmorgun skein sól áfram í heiði og því kjörið að ganga upp í Kamba og taka út berjasprettuna, sem lítur bara ansi vel út. Til dæmis fundum við bláber á ólíklegustu stöðum þarna upp frá.
Það var því með nokkrum trega, jafnvel öfund, að við kvöddum Ingunni eftir hádegið í gær þar sem hún flatmagaði í sólbaði á pallinum og hugðist halda áfram sinni vikudvöl.
1 Comments:
Takk fyrir síðast kæra frænka, pabbi var svo ánægður að hann fann ekki fyrir þreytu, eða svo sagði hann í gærkvöldi. Þetta var yndislegt kvöld og mikið hlógum við systurnar þegar við horfðum á eftir Ingunni og Gústa ganga yfir túnið, hann var í skemmtilegu stuði. Svo þarf að setja VINDHANANN upp. Ég hitti svo vonandi Diddu og familíu um helgina.
Kveðjur í bæinn, Elsa frænka
Skrifa ummæli
<< Home