9.8.07

Opinberunarbækur

Hér er orðið opinberunarbók notað um bækur sem mér hafa reynst mér opinberun, þetta er ekki Biblíustúdía (síðbúinn ritdómur um þá bók birtist kannski seinna). Þarna eru t.d. Íslandsklukkan (í heild) og Gerpla. Ég var í menntaskólanum á Laugarvatni þegar ég las þessar tvær sögur og ég datt í þær, lá bara uppi í rúmi og las, fór ekki í kvöldmat og vakti langt fram á nótt. Sjálfstætt fólk var líka opinberunarbók, samt enn meiri þegar ég las hana rígfullorðin. Mér dettur í hug enn ein opinberunarbók frá Laugarvatni. Sú lét nú ekki mikið yfir sér; þetta var þunnt fjölritað hefti sem Ólafur Briem hafði tekið saman með íslenskum nútímaljóðum. Þetta voru fyrstu kynni mín af flestum þessum skáldum og eiginlega þau bestu um leið, því Kristinn skólameistari kenndi kverið meistaralega. Ég varð fyrir vonbrigðum veturinn eftir þegar ég settist í íslenskudeildina þar sem ríkti allt annað hugarfar, einhvers konar napur marxismi, og það hjá Silju, þessari flinku og fínu konu. Nenni ekki að ræða það frekar.

Ég hlýt að hafa hitt einhverjar opinberunarbækur í millitíðinni en næst staldra ég við Villta svani. Hrikalega er það góð bók! Ég hafði lesið fullt af bókum eftir Pearl S. Buck heima í gamla daga (dálitlar opinberanir þar) svo saga ömmu höfundarins kom ekki svo mjög á óvart. Ég var spenntari fyrir sögu móður hennar og hennar sjálfrar og auðvitað allra mest hissa á menningarbyltingunni og því fári öllu. Mér fannst meira að segja eins og menningarbyltingin hefði náð pínu á Laugarvatn því lesturinn kallaði fram myndir af ungum mönnum veifandi Rauða kverinu og Kommúnistaávarpinu og hvað þetta nú hét allt saman. Helvítis karlinn komst meira að segja þangað! Já, það er sniðugt að nota unga bjána til að vinna ill verk!

Saga litlu strákanna frá Afganistan, Flugdrekahlauparinn, er síðasta alvöru opinberunarbókin mín. Ég fékk hana lánaða á ferðalagi í fyrra og gleypti hana í mig, gat ekki stoppað. Nú er ég búin að kaupa hana og hlakka til að lesa hana aftur.

Jú, jú, ég viðurkenni að það kom margt skemmtilega á óvart á þessum 2000 síðum eða hvað Biblían nú er. Til dæmis þessi partur úr uppskrift að tjaldbúð:

1Tjaldbúðina skaltu gera úr tíu tjalddúkum úr tvinnuðu, fínu líni, bláum og rauðum purpura og skarlati. Þú skalt vefa kerúba með myndvefnaði í dúkana. 2Hver dúkur á að vera tuttugu og átta álna langur og fjögurra álna breiður. Allir dúkarnir eiga að vera jafnstórir. 3Fimm tjalddúkanna skaltu tengja hvern við annan og hina fimm skaltu einnig tengja hvern við annan. 4Þú skalt gera lykkjur úr bláum purpura á jaðri annarrar samfellunnar og eins skaltu gera á jaðri endadúksins í hinni samfellunni. 5Þú skalt gera fimmtíu lykkjur á annan tjalddúkinn og fimmtíu lykkjur á jaðar endadúksins í hinni samfellunni og skulu lykkjurnar standast á. 6Þú skalt einnig gera fimmtíu króka úr gulli og festa dúkana saman með krókunum svo að tjaldbúðin verði ein og óskipt.

Og svo lýsingin á því hvernig var farið eftir uppskriftinni:

8Hagleiksmennirnir á meðal þeirra, sem verkið unnu, gerðu tjaldbúðina úr tíu tjalddúkum úr tvinnuðu, fínu líni, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati. Þeir glitófu kerúba í dúkana. 9Hver dúkur var tuttugu og átta álna langur og fjögurra álna breiður. Allir dúkarnir voru jafnstórir. 10Hann festi fimm tjalddúka hvern við annan og hina fimm tjalddúkana festi hann einnig hvern við annan. 11Síðan gerði hann lykkjur úr bláum purpura á jaðar annars tjalddúksins á samfellunni og eins á jaðar endadúksins á hinni samfellunni. 12Hann gerði fimmtíu lykkjur á annan tjalddúkinn og fimmtíu lykkjur á jaðar endadúksins í hinni samfellunni. Lykkjurnar stóðust á. 13Síðan gerði hann fimmtíu króka úr gulli og krækti dúkana saman með krókunum svo að tjaldbúðin varð ein og óskipt.
(tölurnar eru versanúmer sem ég nennti ekki að laga)

Web Counter

3 Comments:

At 16 ágúst, 2007, Blogger Þóra said...

Sæl frænka,

Hóf lestur Flugdrekahlauparans í vikunni vegna þinna orða og annarra. Býst við að klára hana í flug- og lestarferðum í Danmörku núna um helgina. Verð svo að fara að kíkja á ykkur á miðvikudagskvöldi.

Þín frænka,
Þóra

 
At 28 ágúst, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Pearl S. Buck - vá hvað ég gleypti hana í mig sem barn/unglingur. Ég las Austan vindar og vestan mörgum mörgum sinnum.
Hvað ætli manni finnist um þessar bækur núna?
Ég var líka með dellu í Somerseth Maugham á tímabili. Hef ekki heldur lesið hann í fleiri fleiri ár. Jerzy Kozinski var svona opinberun fyrir mig. Mæli með bókunum hans. Stórkostlegar. Allavega fannst mér það fyrir þetta 20 - 30 árum síðan...
Kristín Björg

 
At 19 janúar, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Sjálfur gafst ég upp á Villtum svönum, um miðbik bókarinnar þegar mér fannst efni sögunnar vera komið til skila... En það gæti auðvitað verið misskilningur!

 

Skrifa ummæli

<< Home