Hrakningar og heiðavegir...
heitir ritsafn sem ég hef að vísu aldrei lesið, en titillinn, sem mig minnti reyndar að væri Hrakningar á heiðavegum og hefði átt aðeins betur við þessa færslu, kom upp í hugann eftir hrakninga mína um heiðavegi í nágrenni Reykjavíkur í gær.Ég á ekki mjög langan bílstjóraferil að baki og undanfarin ár hef ég ekki þurft að nota bíl neitt óhóflega mikið því ég vinn heima hjá mér. Þess vegna finn ég stundum fyrir dálitlum ugg í brjósti þegar ég þarf að hætta mér út í alvöruumferðina hér í Reykjavík, ég tala ekki um "og nágrenni". En í gær brá ég mér sem sé í Smárabíó með yngri dótturinni og vinkonu hennar. Við höfðum fengið ókeypis miða frá Glitni og og okkur fannst líka sniðugt að fá okkur að borða fyrir sýninguna. Maturinn og bíóið var allt í lagi, þó að mér fyndist reyndar Smáralind voða stór og ókunnugleg, enda hef ég ekki komið þangað í marga mánuði, jafnvel ár.
Það var komið myrkur og þokusúld þegar bíóið var búið. Þá upphófust hrakningarnir. Fyrst varð mér það á að taka vitlausa beygju svo að ég stefndi upp til heiða en ekki í átt til Reykjavíkur mið- og vestur þegar ég ók frá Smáralind. Skilti leiðbeindu þó um að Reykjavík nálgaðist aftur. Þá urðu mér á önnur mistök. Í slaufunni niður á Miklubrautina tók ég stefnuna austur en ekki vestur, þó mér fyndist skiltið sýna afdráttarlaust (í myrkrinu og þokusúldinni) að þarna ætti að beygja ef maður ætlaði í mið-vesturbæ. Ég keyrði upp að Húsgagnahöll til að snúa við!
Það voru fegnar manneskjur sem stigu út úr bílnum á Kvisthaganum kl. rúmlega 10, í hér um bil heiðskíru veðri.
Um daginn fór ég með mömmu upp á Landspítala, sem er ekki í frásögur færandi, nema að á leiðinni þaðan rambaði ég á vitlausa slaufu og keyrði alla leið að hringtorginu við Suðurgötu til að snúa við. Nýi Hringbrautarhryllingurinn er þannig að ef maður ekur hann ekki hér um bil daglega er nær öruggt að maður fattar ekki réttu leiðina.
Á maður ekki bara að flytja til Ísafjarðar?
1 Comments:
Jú þú ert örugg á Ísafirði. Það er m.a. vegna þess að bankarnir og stóru fyrirtækin sem starfa á landsvísu gefa ekki miða í bíóið og leikhúsin á Ísafirði og því er ekki mikið um villuráfandi sauði í umferðinni hér.
Takk fyrir góðar kveðjur í færslunni á undan.
Bestu kveðjur.
Kalli.
Skrifa ummæli
<< Home