Ísafjörður og nágrenni
Við vorum tæpa viku á Ísafirði um daginn, í íbúð sem BHM leigir þar á staðnum. Þetta var frábær vika; yndislegt veður, stórkostlegar móttökur hjá Diddu og Kalla og svo öll berin!
Didda og fjölskylda voru á fótboltamóti þegar við komum. Fyrstu tveir dagarnir voru því nokkuð hefðbundnir enda réð Óli að mestu ferðinni, fórum í sund á Suðureyri, keyrðum út í Bolungarvík o.s.frv. Reyndar skruppum við á söngtónleika í bænum á sunnudagskvöldið, sem er ekki hefðbundið í okkar tilfelli.
Svo hófst opinber heimsókn okkar á Ísafirði þegar heiðurshjónin í Stakkanesi 6 komu heim. Það voru auðvitað höfðinglegar veislur eins og þeirra er von og vísa og í kaupbæti fékk Óli leiðbeiningar um grillun á nautakjöti og fleira. Svo var auðvitað farið með okkur á merkilega staði eins og aðra höfðingja. Aðalferðalagið var í Lokinhamradal. Önnur myndin hér fyrir ofan sýnir Kalla við Lokinhamrabæinn. Þarna var hann í sveit sem strákur, við ansi frumstæðar aðstæður (t.d hálfgerða baðstofu og kamar sem var að vísu í húsinu en gengið inn að utan). Hin er af okkur Diddu og Óla að dást að tignarlegu landslaginu á Lokinhömrum.
Það var alveg ótrúlega fallegt að sjá Arnarfjörðinn opnast þegar maður kom af versta óveginum. Ég ætla ekki að fara út í nánar lýsingar á því hvernig okkur Óla leið í mjósta og hæsta hlutanum af veginum sem hann Elías ástríðuýtumaður ruddi forðum. (Börn voru ekki með.) En þetta var frábær ferð í frábæru veðri og ekki spilltu frásagnir Kalla af fólki og fjöllum á þessum slóðum.
Við ætluðum að skreppa í bátsferð á Hesteyri en þegar til kom var ekkert sæti laust svo að í staðinn var farið á Bolafjall og í Skálavík. Þar tók Kalli mynd af jeppanum okkar til sannindamerkis um að Óli hefði farið þarna upp.
Daginn áður en við fórum fórum við systur á berjamó - nema hvað! Oft hefur verið blátt í nágrenni Ísafjarðar en sjaldan víst eins og nú. Á gönguferð höfðum við rekist á ótrúlega bláar þúfur rétt áður en komið er að gangamunnanum. Þar settumst við og þurftum lítið að hreyfa okkur úr stað eftir það. Við týndum þarna heilmikið af bláberjum á stuttum tíma. Innfæddir Vestfirðingar fussuðu eitthvað yfir því að týna ekki aðalbláber en við létum sem við heyrðum það ekki.
Okkur tókst að halda dálitla lundaveislu í íbúðinni (þau hjón útveguðu lundann, ekki að spyrja að því) þótt aðstæður væru dálítið frumstæðar. Lundi er, eins og annar villtur fugl, mikill uppáhaldsmatur okkar hér á Kvisthaganum. Og þessi sveik sko ekki!
Við sáum örn á vesturleið í Djúpinu og fálka (höldum við) á heimleiðinni, rétt hjá Kolbeinsá í Hrútafirði. Við komum aðeins við á Melum í bakaleiðinni og vökvuðum, nóg vatn núna! Þar var svo fínt og fallegt og grænmetisbeðið sem hún Didda útbjó um daginn svo fínt að mig dauðlangaði að vera áfram í nokkra daga.
Best að hætta áður en þetta verður eins og hjá Leifi Sveinssyni (kannski orðið það) og þakka þeim heiðurshjónum enn einu sinni fyrir okkur!
3 Comments:
Þetta hefur verið stórkostlegt.
En þar sem ég hef ekki séð ykkur síðan á Gilsbakka í júlí, vil ég þakka fyrir síðast. Nú stendur til að fara norður um helgina og ef veður leyfir, fara í berjamó. Annars fékk ég sendingu að austan með Elsu og gúffaði eins og krakkarnir segja í mig í gærkveldi.
Hörður ætlar í GÆS svo kannski sjáum við fram á villibráðarveislu, hver veit? Svo verðum við að fylgjast með rjúpnaveiðum hvort eða hvenær þær verða leyfðar. Sagan af vatnsmálunum verður ekki sögð á opinberum vettvangi.
Kveðja,
Ína
Sæl kæra systir.
Hjartans þakkir fyrir öll fallegu orðin....Já það er alltaf gaman að fá fólkið sitt í heimsókn vestur. Veðrið er búið að vera svipað núna síðustu dagana eins og það var þegar þið voruð hér logn, logn, logn.
Annars bestu kveðjur frá kennaranum.
Didda systir.
Þetta hefur aldeilis verið gaman hjá ykkur Diddu.Sé ykkur fyrir mér í berjamónum í annarlegu ástandi.Það er svo gaman að komast í þokkaleg ber .Alltaf gaman að fara til Ísafjarðar í heimsókn. Þau kunna líka allveg að taka á móti gestum Didda og Kalli.Hefur nokkur orðið var við annað? Kveðja frá tilvonandi kokknum.
Skrifa ummæli
<< Home