10.9.07

Helgi fyrir norðan

Við skruppum norður að Melum á föstudaginn. Þetta var ósköp notaleg helgi og byrjaði sannarlega vel, við renndum í hlað rúmlega sex, svo það var góður tími til að elda föstudagskjúklingana (sá fugl hefur verið fastur á föstudagsmatseðli okkar hér á Kvisthaganun ansi lengi). Eins og allir vita á lífið í sumarbústaðnum (og tjaldinu/fellihýsinu/ hjólhýsinu/húsbílnum) að vera sem líkast því sem það er heima hjá manni, og þar passaði kjúklingurinn sannarlega vel. Það var gott að koma norður og ekki sakaði að veðrið batnaði eftir því sem nálgaðist heimahagana. Birtan og skýjaspilið yfir Holtavörðuheiðinni var stórbrotið, maður sá hvernig skýin ruddust yfir fjöllin og mýrarnar úr vesturátt en svo var allt bjart í austri og norðri. Gróður á heiðinni er orðinn svolítið haustlegur en maður hefur líka á tilfinningunni að sumarið hafi verið ósköp gott við hann.

Á laugardagsmorguninn var hlaupið sem snöggvast út að Fögrubrekku, ekki lengra af því að ég vildi koma snemma í réttirnar. Það var hálfgerður misskilningur því þessir fáu kallar sem enn fá sér í tána í réttunum voru ekki byrjaðir; mér er til dæmis til efs að Keli Sakk hafi verið búinn að bragða dropa, og því lítil "réttastemmning". Hrútatungurétt er orðin svolítið eins og margfalt ættarmót Staðhreppinga. Við trufluðum þau mót ekki mikið, enda stúlkurnar óþolinmóðar og vildu komast í sund. Meðan liðið var í sundi brá ég mér á berjamó upp með Ormsá. Það var heilög stund í frábæru veðri. Ég fór bara í Kambablettina en tíndi samt fulla málningarfötu (8 eða kannski 10 l?) af krækiberjum. Auðvitað horfði ég löngunaraugum upp í Kamba af brúninni en tíminn var heldur naumur og fatan farin að þyngjast svo ég hélt af stað niður og fór með fram Kambalæknum sem nú var bara orðinn dálítið vatnsfall, annað en í sumar! Og fallegt var við lækinn eins og alltaf.

Garðurinn við húsið er ljómandi fallegur, bletturinn á kafi í grasi svo Óli sló hann (að ráði Daníels bústaðareiganda á Melum) og sumarblómin enn í fullum skrúða. Trjágróðurinn skartaði líka sínu fegursta eftir fína snyrtingu Sigurgeirs í sumar. Salat og kál var notað óspart bæði kvöldin og sást varla högg á vatni (eða káli).

Hátíðarkvöldverðurinn varð enn hátíðlegri með kerta/blómabakka sem kom um daginn að vestan og var skreyttur með túrkisbláum kertum og fjólum utan af palli.

Það var ekki að undra að okkur þætti erfitt að slíta okkur burt af staðnum um kaffileytið í gær í suðvestanblæ og svipaðri töfrabirtu og þegar við komum á föstudagskvöldið.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home