Þrettán ára snót, bleikar rósir og fleira
Yngri heimasætan er þrettán ára í dag. Það verður settleg afmælisveisla klukkan sjö með sex til borðs (fimm vinkonur boðnar). Við erum búnar að dúka með gegnsæja blúndudúknum og bleiku undirlagi, sparidesertdiskunum og servíéttum með bleiku bóndarósamynstri. Á miðju borði er diskur á fæti með bleiku kerti í miðjunni og fínlegar bleikar rósir í kring. Á skenknum eru sams konar rósir í fínlegum kristalvasa. Það skal viðurkennt að ég ber meginábyrgðina á þessu bleika þema. Mikið er ég fegin að mér skuli þykja bleikur litur fallegur - svona eins og litla stúlkan yndislega í myndinni Meet me in Saint Louis sem sagði eitthvað á þessa leið: "Mikið er ég fegin að ég skuli einmitt hafa fæðst í uppáhaldsborginni minni." Þetta sítat hefur reyndar komið ótal sinnum upp í hugann þegar ég hef heyrt til fyrrverandi landbúnaðarráðherra - er einhver hissa?Vel á minnst, hver er annars landbúnaðarráðherra núna?
Bleik borðskreyting er afskaplega góð þerapía þegar maður er gjörsamlega búinn á því eftir langa bókargjörgæslutörn.
1 Comments:
Innilegar hamingjuóskir til heimasætunnar. Undarlegt hve tíminn flýgur, mér finnst svo stutt síðan hún fæddist þessi elska.
Bestu kveðjur frá Ínu frænku
Skrifa ummæli
<< Home