22.10.07

Eftir helgarreisu til Kaupmannahafnar

Þetta er nú orðið dálítið langt ... sagði Þórbergsfraukan ef ég man rétt. Það er líka orðið dálítið langt hléið á þessari síðu, sem skýrist af miklum önnum en einnig helgarfríi í Kaupmannahöfn. Þangað brugðum við okkur á fimmtudaginn, hele familien, og komum aftur í gærkvöldi. Þetta var afskaplega hyggelig og dejlig ferð og nokkuð týpísk trúi ég, rambað um strikið þar sem dæturnar slepptu sér í H & M og fleiri slíkum búðum, og svolítið kíktum við hjónin líka í búðirnar og við borðuðum mikinn og góðan mat, fórum líka á Believe it or not safnið þar sem H.C. Andwersen var innifalinn, og í Tívolí.

Þar sem ég er nú ekki daglegur gestur í útlöndum, eða þannig, var ýmislegt sem vakti athygli mína, en þotuliðið er kannski hætt að taka eftir.

Það er til dæmis þessi rafmagnsgræju- og diskabúð Fona á Strikinu sem er svona yndislega troðfull af bæði CD-um og DVD-um - miklu ódýrari en hér. Þær fáu plötubúðir sem enn tóra hér minna helst á nútímagallerí eða rándýrar tískuverslanir, slíkur er tómleikinn í hillunum. Líklegasta skýringin er þó sú að þetta séu deyjandi verslanir, flestir stela bara múskinni eða myndunum af Netinu, og þeir sem ekki gera það kaupa diska þegar þeir fara til útlanda því ekkert fæst hér.

Og svo þetta yfirgengilega heimskulega vopna- og vökvaeftirlit! Maður er gegnumlýstur og þuklaður fram og aftur á leið inn í vélina en hvað með salina fyrir framan, þar sem maður tékkar inn? Af hverju er ekki sama varúðin þar?

Hótelið okkar var svona miðlungshótel og í frekar vafasömu hverfi, rétt hjá Járnbrautarstöðinni og þeirri frægu Istedgade. Það voru tveir dáldið skuggalegir (sýndist manni) klúbbar skáhallt á móti og við höldum jafnvel að við höfum séð eina til tvær portkonur. Samt urðum við aldrei vör við hávaða, og vorum þó þarna um helgi.

Á veitingastaðnum sem við fórum á í Tívolí var næstum eintómt gamalt fólk. Skýringin teljum við að sé sú að það er svo dýrt að fara í Tívolí að fólk undir eftirlaunaaldri fer þangað með nesti, en ellismellirnir fá líklega frítt inn, og í strætó, og þá finnst þeim þeir hafa grætt svo mikið að þeir splæsa á sig mat á rándýrum stað.

Hvernig ætli það sé annars, ætli Baugur eigi ekki Tívolí? Ef svo er finnst mér að vér Íslendingar ættum að fá frítt inn, og líka í tækin.

Web Counter

4 Comments:

At 23 október, 2007, Blogger Þóra said...

Sæl frænka,
Sé að þið hafið gert góða reisu til Köben. Uppgötvaði við lesturinn að ég hef aldrei gist á hóteli í gömlu höfuðborginni, alltaf lagst upp á vini. Mér skilst að það sé ekki mjög "hip" lengur að fara í tívolí heldur fer maður í Bakken. Skýrir kannski aldur veitingahúsagesta.

Með kveðju og takk fyrir síðast,
Þóra frænka

 
At 23 október, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Blessuð frænka.
Ég man að Reynir Þór sagði að maður ætti ekki að borða í Tívolí!!
Þeir væru algerlega metnaðarlausir og þangað kæmi svo margt fólk að þeir þyrftu ekki að hugsa um hverjir kæmu aftur. En hins vegar sagði hann frá mörgum skemmtilegum veitingastöðum á Ystegade og þar í nágrenninu. En mig langar til Köben í desember ég viðurkenni það alveg. Mér fannst alveg yndislegt að rápa um Tívolíið í allri ljósadýrðinni í fyrra.
Kveðja,
Ína

 
At 07 nóvember, 2007, Anonymous Nafnlaus said...

Ohhh alltaf gaman að koma til Köben. Ég hef verið á hóteli í "hverfinu" og ég er mjög hrifin af öllu "þarna megin við járbrautastöðina" Hvað hét hótelið. Ég var í Köben í ágúst og það er ekkert lítið krúttlegt að sjá alla ellismellina í Tívolí. Heilu breiðurnar af huggulegum kjellum að "hugge sig"
Kristín Björg

 
At 19 janúar, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Móðir mín fór rétt með, það er engin ástæða til að borða í Tivoli nema einu sinni og þá bara upp á þá stemmningu (og þá má maður ekki vera fúll yfir verði eða gæðum). Bestu staðirnir sem ég man eftir í miðborginni eru annars indverskur staður við Halmtorvet (rétt við Istedgade), taílenskur staður í Pisserenden (man ekki hvað gatan heitir, líklega Larbjörnsensgade eða eitthvað álíka, og svo frábær kínverskur staður ofarlega milli Vesterbrogade og Gammel Kongevej!

 

Skrifa ummæli

<< Home