Gamla Melahúsið (1)
Þetta var lítið hús með valmaþaki, byggt úr asbesti sem þá var álitið kraftaverkaefni, fékkst í stórum flekum og brann ekki. Ég held að foreldrar mínir hafi flutt inn í það árið 1952. Sjálfsagt hefur það verið málað fljótlega eftir að það var byggt, en lögin hafa hvorki verið þykk né mörg því þegar ég man fyrst eftir mér er liturinn ansi mikið farinn að veðrast. Löngu seinna var það málað dökkgult.Gengið var inn að vestan. Stétt var frá norðvesturhorninu og svo tvær tröppur upp að útidyrunum sem voru nokkurn veginn á miðri vesturhliðinni. Stéttin var dálítið sprungin en að öðru leyti þokkalega slétt. Það sama var ekki sagt um tröppurnar framan við útidyrnar. Þar var steypan ansi hrjúf því hún hafði frosið þegar tröppurnar voru steyptar og ysta lagið kvarnast burt. Það var því enginn hornréttur kantur á þrepunum, heldur frekar rúnnaður en um leið mjög úfinn eins og áður sagði. Svolítið skot var við útidyrnar vegna þess að suðvesturhluti hússins, þar sem stofan var, gekk lengra í vestur. Þar stóð gjarnan mjólkurbrúsi; á haustin man ég þar eftir fullum brúsa af sýru sem beið eftir að komast á slátrið. Okkur þótti óskaplega gott að fara og fá okkur af sýrunni eftir næturfrost enda ekki á hverjum degi sem við fengum svaladrykk með klaka.
Fyrir neðan stéttina, vestan og norðan megin, vildi myndast pollur og svað í rigningum. Einstöku sinnum var möl borin þar ofan í en ekki nándarnærri nógu oft að mati mömmu. Það vildi dragast eins og ýmis önnur karlmannsverk heima við.
Á norðurveggnum var einn gluggi, lítill og hátt uppi. Hann tiheyrði baðinu. Upphaflega áttu að vera bakdyr þarna þar sem væri gengið inn í þvottahúsið en af einhverjum ástæðum hafði því opi verið lokað með asbestfleka og neglt fyrir. Þegar svo olíukynding kom í húsið var endanlega girt fyrir þessa út- og inngönguleið því olíutanknum var komið fyrir á einhvers konar palli, hrófatildri sem minnti á vinnupall, hátt upp við vegginn þar sem téðar dyr áttu að vera. Ég veit ekki hvers vegna þessu var komið svona fyrir, kannski svo að olían rynni betur inn í húsið, kannski til að þurfa ekki að kaupa dælu. En aldrei var neitt gert í að breyta þessu fyrirkomulagi þó að mamma kvartaði oft sáran yfir því að hafa ekki bakdyr en þurfa að búa við umferð skítugra karla, krakka og mjólkuríláta inn um forstofuna, eftir ganginum, gegnum eldhúsið og þaðan inn í þvottahús.
Dálítið fyrir norðan húsið var steinn þar sem var barinn harðfiskur - samt held ég að ekki sé hægt að kalla hann fiskastein eins og voru í gamla daga - til þess var hann of venjulegur.
Á austurhliðinni voru þrír gluggar. Nyrst var þvottahúsglugginn, þá kom eldhúsglugginn og loks var svo lítill gluggi á búrinu austast, sömu stærðar og í sömu hæð og á baðinu. Þvottasnúrurnar voru á grasbalanum fyrir austan húsið. Við austurhliðina hafði gömul hálfbrotin asbestplata verið reist upp við vegginn. Bak við plötuna var stundum skotið ýmsu dóti, áhöldum og málningardósum ef ég man rétt. Kannski var þar líka geymdur matur stundum en annars var matur aðallega geymdur norðan við húsið. Ísskápur kom ekki fyrr en um 1970 ef ég man rétt.
Sunnan við húsið var svo garðurinn hennar mömmu. Hann var girtur með hænsnaneti og girðingin fór fljótt að ganga úr sér, enda var viðhald hennar ekki forgangsverkefni hjá karli föður mínum. Göt vildu koma á netið og þá voru hænurnar skæðar með að smeygja sér inn. Ég man t.d. að Surtla (sem ég átti) gerði þarna mikinn usla, aðallega þó vegna þess að ég vildi ekki reka hana burt af því að ég átti hana. Ég fékk auðvitað miklar skammir fyrir.
Í garðinum var svolítið rifs að austan, sem alltaf var undirlagt af lús, og uppskera grátlega lítil. Svolitlar birkihríslur og líklega ein ösp voru að sunnan. Grasbletti man ég eftir í miðjunni. Þarna voru nokkrir fjölæringar, eins og garðabrúða, venusvagn og rannfang. Ég man líka eftir stjúpum og morgunfrúm sem mamma hefur sjálfsagt sáð til sjálf. Einhvern tíma fékk ég að hafa þarna lítið beð út af fyrir mig en man ekki hvað var í því.
Að lokum gafst mamma upp á garðinum, nokkru áður en nýja húsið var byggt minnir mig, enda var hún þá farin að vinna heilmikið utan heimilis og alltaf sama tregðan með girðingarviðhaldið. Merkilegt má samt heita að hún skuli ekki bara hafa ráðist í að girða sjálf. Ég er samt viss um að garðurinn veitti henni margar ánægjustundir; hún var þarna oft langt fram á nótt þegar vel viðraði.
Eigum við svo að fara inn eftir ca. mánuð?
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home