1.1.08

Gamla Melahúsið (2)

Ég tók svo marga útúrdúra við lýsinguna á húsinu að utan að ég komst ekki til að lýsa gluggunum allan hringinn. En á suðurhliðinni voru sem sé tveir gluggar, annar á herberginu inn af stofunni sem var kallað "suðríherbergi" og hinn var annar partur horngluggans á stofunni, hinn parturinn sneri í vestur. Norðan megin við útidyrnar á vesturhliðinni var glugginn á hinu svefnherberginu, sem var kallað "norðuríherbergi" eða bara norðurí.

Þegar inn kom var gengið inn í ósköp litla forstofu. Þar voru nokkrir fatasnagar á norðurveggnum, suðurveggurinn minnir mig að hafi verið auður. Bert steingólf var á forstofunni og fremur hrjúft, hundleiðinlegt að skúra það. Þarna urðum við að geyma allan okkar útiskófatnað og var því oft þröng á þingi. Þar við bættist að þetta var íbúð hundsins á heimilinu, það var algert slys ef hann fór inn fyrir þröskuldinn. Hundurinn lá þarna á mottu, oftast fléttaðri eða heklaðri úr fataafgöngum. Úr forstofunni var gengið inn á lítinn gang. Til vinstri handar (í norður) voru fyrst dyrnar inn í herbergið norðurí og síðan aðrar inn á baðið. Á þessari hlið var líka lítill innbyggður skápur. Hægra megin voru dyrnar inn í stofuna en úr henni var gengið inn í herbergið suðrí, eins og áður segir. Fyrir enda gangsins voru svo dyrnar inn í eldhúsið en úr því var gengið vinstra megin inn í þvottahúsið en hægra megin inn í búrið.

Byrjum á norðuríherberginu. Þegar ég man fyrst eftir mér sváfum við þar stelpurnar þrjár og pabbi og mamma. Þau sváfu á dívani við vesturvegginn undir glugganum (ofninn var ekki þar heldur á norðurveggnum), þar rétt hjá var rúm Lillu, hvítlakkað barnarúm, og svo sváfum við Ingunn í kojum upp við austurvegginn. Í hverju við sváfum áður en kojurnar komu man ég ekki, ég man hins vegar þegar Guðmundur í Grænumýrartungu, sem smíðaði kojurnar, var að ganga frá þeim á sínum stað. Þær voru ljósgul-lakkaðar og með mjóum sívölum rimlum á hliðunum. Í kojunum sem Jónasarkrakkar fengu um svipað leyti voru flatir rimlar, en annars voru þær mjög svipaðar. Stundum vorum við að líma glansmyndir eða eitthvað svipaðar myndir inn á rúm Lillu og kojurnar. Líklega höfðum við fyrirmyndina frá Lilju, rúm hennar barna var með fallegum blómamyndum, kannski sem völundurinn Sigurður Lýðsson, pabbi hennar, hafði málað. Seinna kom svefnsófi í stofuna og þá sváfu pabbi og mamma þar um tíma ef ég man rétt. Í herberginu suðurí sváfu Himmi og Gústi fyrst þegar ég man eftir.

En snúum okkur aftur að norðuríherberginu. Til viðbótar rúmunum sem þar voru var þar fyrst þegar ég man kommóða. Á henni var útvarpið og ég man vel eftir rödd Axels Thorsteinssonar úr því með Lundúnafréttirnar á morgnana. Mig minnir að á kommóðunni hafi líka verið lampi, gamall aladdín-lampi sem hafði verið breytt í rafmagnslampa. Önnur húsgögn voru ekki þarna, enda herbergið ekki stórt. Enginn fataskápur var þar heldur. Þar sem húsið var svo lítið, við mörg og skápapláss lítið var allt rými nýtt til hins ítrasta, til dæmis voru alls staðar kassar undir rúmum, bæði með dóti sem sjaldan var notað og svo dótakassar okkar krakkanna. Ég man þegar herbergið var málað ljósbleikt og í loftið var sett ljósakróna sem líka var ljósbleik og með mjóum gylltum röndum út við brúnina neðst.

Ætli það hafi ekki verið á árunum 64-65 sem í Hrútafjörðinn kom lunkinn húsgagnasali frá Trésmiðjunni Víði, mig minnir að hann héti Ragnar Laufdal. Hann sannfærði pabba um að allt almennilegt fólk yrði að eiga almennilegt hjónarúm, helst "svefnherbergissett". Pabbi ákvað að gerast djarfur og keypti allan pakkann, rúm, náttborð og snyrtiborð. Settinu var komið fyrir suðrí herbergi og þar með fengum við stelpurnar herbergið norður í til umráða. Himmi var þá nokkurn veginn farinn að heiman og Gústi kominn í Reykjaskóla og því í burtu mestallan veturinn. Þeir hafa þá orðið að sætta sig við svefnsófann sem áfram var í stofunni, og einnig rámar mig í að Gústi hafi stundum sofið inni hjá okkur stelpunum í fríum.

Eins og gefur að skilja var ekki pláss eða efni fyrir mikið skraut eða pjatt í þessu herbergi. Myndirnar sem amma gaf okkur ein jólin voru því kærkomnar, englamyndin mín var hengd fyrir ofan efri kojuna og hundamyndin hennar Ingunnar minnir mig að hafi verið sett á norðurvegginn. Lítill spegill var þarna einhvers staðar. Á herberginu var fyrst blár línóleumdúkur, með texundirlagi. Hann gekk fljótt úr sér og þá lagði Ingólfur Pétursson þar hvítar vínylflísar. Gólfið varð bæði kaldara og skítsælla við þessa aðgerð. Eitthvert óhapp varð til þess að gat kom á austurvegg herbergisins, fyrir ofan neðri kojuna sem Ingunn svaf í. Það var hægt að stinga hendinni þarna inn í og okkur fannst þetta alltaf svolítið dularfullt gat. Það hefur örugglega ekki verið hollt heldur því veggir voru asbestklæddir eins og áður er getið. Ekki man ég eftir að gatinu væri lokað.

Mér finnst að alltaf hafi verið rósóttar gardínur fyrir glugganum, með rykktum kappa fyrir ofan, hvort tveggja þrætt á gorm og strengt milli nagla eða króka yfir glugganum. Í öllum gluggum hússins var í fyrstu einfalt gler og því komu á þennan eins og hina frostrósir á veturna. Það var eitt morgunverkið að "vinda úr gluggunum" þegar rósirnar fóru að leka af.

Þegar kojurnar fóru að verða of litlar fengum við þrjár elstu systurnar svefnbekki sem á daginn voru eins og tveggja manna sófar og stækkaðir fyrir nóttina með púðunum sem mynduðu bakið. Galli var að armarnir sem púðarnir hvíldu á voru heldur veikir og brotnuðu á sumum bekkjunum. Ekki var hirt um að hafa mublumentið í stíl heldur fékk ég rauðan bekk, Ingunn dökkbláan og Lilla fagurbláan (dralonáklæði). Um svipað leyti fengum við tekkkommóðu með sex skúffum sem við skiptum systurlega milli okkar, ég fékk efstu og neðstu og svo koll af kolli eftir aldri og virðingu.

Seinna, þegar við vorum nokkurn veginn farnar að heiman, nema á sumrin, flestar, málaði mamma herbergið og veggfóðraði einn eða tvo veggi. Málningin var appelsínugul og veggfóðrið rauð- og appelsínugulmynstrað. Okkur fannst þetta flott enda skærir litir og veggfóður í tísku þá.

Við gleymum því örugglega aldrei "stóru krakkarnir" þegar við komum heim í frí og bíllinn ók heim tröðina að þá sást yfirleitt eitthvað hvítt hreyfast ótt og títt upp og niður í glugganum norður í. Þetta var kollurinn á henni Diddu litlu systur. Hún hafði klifrað upp á svefnbekkinn undir glugganum og hoppaði nú upp og niður í æsingi þegar hún sá bílinn koma. Og svo urðu fagnaðarfundir!

Web Counter

6 Comments:

At 04 janúar, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Alltaf gaman að lesa bloggið þitt frænka mín þetta er svo líflegt og skemmtilegt. Kemur út hjá mér tárum en það er nú alltaf frekar stutt í þau hjá mér. Bestu nýjárskveðjur til ykkar allra.
Knús og koss.
Þóra J.

 
At 04 janúar, 2008, Blogger Unknown said...

Ó hvað þetta er sætt!
Ég man eftir Axel Thorst., skemmtilegur og prúður maður.
Gleðilegt ár, elsku Helga.

 
At 05 janúar, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Já,Þóra mín, þetta er auðvitað til að græta þig. Bíddu bara þangað til ég lýsi þvottahúsinu, það verður virkilega "rörende"! Annars fer þetta að minna á suðursveitarlýsingar Þórbergs, altso hvað lengdina varðar.
Kv.
Helga

 
At 10 janúar, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Þetta eru yndislegar lýsingar.
Kveðjur í bæinn.
Elsa frænka

 
At 11 janúar, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Já ég er sammála Þóru það er stutt í tárin mín þegar ég les þetta enda ég sérstaklega grátgjörn þessa dagana. En það er bara svo gaman að rifja þetta allt upp og allveg einstaklega vel gert hjá þér Helga mín.Ég man svo vel eftir Diddu hoppandi í svefnsófanum man eftir þegar ég stóð við hlið hennar og reyndi að hemja hana (eg get ekki beðið, ég get ekki beðið sagði hún í sífellu )Mig minnir að þá hafi Himmi og Sigga verið að koma. Ég bíð spennt eftir næsta bloggi . Kveðja Ingunn systir.

 
At 19 janúar, 2008, Anonymous Nafnlaus said...

Jæja, minn er risinn úr blogglesturleysi undanfarinni mánaða, og búinn að kommenta við blogg síðan í maí held ég bara!

Það er nú annars ótrúlegt hvað kokkar sækja í þessa ætt! En ekki kvarta ég, nema yfir því að þurfa að elda oftar en áður!

Og ég held bara að ritgerðin verði kláruð einhvern tíma á sumarmánuðum...

Gleðilegt ár og bestu kveðjur,
Reynir Þór

 

Skrifa ummæli

<< Home