12.3.08

Gamla Melahúsið 4 (búrið)

Það var gengið beint af ganginum í austur inn í eldhúsið og þar á hægri hönd voru dyrnar að búrinu. Þegar gengið var inn í það blasti við veggur á móti og eftir honum endilöngum var búrborðið og hillur fyrir ofan. Undir búrborðið var svo skotið ýmsum varningi, t.d. var alltaf hveitipoki (25 kg?) undir því beint á móti dyrunum. Ég man ekki jafn vel hvað var undir borðinu þegar austar dró (nú er ég farin að tala eins og Norðlendingur). Á hægri hönd, í norðausturhorni búrsins var sláturstunnan (sem áður hefur verið nefnd í pistli). Á norðurveggnum, bak við hurðina þegar opnað var, hékk haglabyssan hans pabba. Við vorum svo hrædd við hana krakkarnir að við þorðum varla að koma við hana, hvað þá meir, enda lítt menguð af stríðs- og bófasögum eða -kvikmyndum. Sjálfsagt hefði ekki verið jafn saklaust að hafa byssu svona á glámbekk nú á dögum.

Á búrborðinu voru kökudunkar geymdir og matarafgangar áður en ísskápurinn kom. Næst austurveggnum var líka lengi skilvinda, sem var reyndar æ minna notuð og loks hent (því miður!) um það leyti sem kýrnar fóru. Upp á borðið á móti dyrunum var nýsoðnu slátri staflað í sláturtíðinni áður en það var sett í súr. Svo mikið var soðið að staflinn náði alveg milli borðs og neðstu hillu. Hvað svo var geymt í hillunum er svolítið óljóst fyrir mér, eitthvað man ég eftir "sjúkrakassa", skókassa með plástri, joði og slíku dóti. Þarna voru líka geymd lyf, líklega bæði manna- og dýra, og vítamíni man ég eftir þarna, hóstasaft, spritti og dróma og germidíni sem við þvoðum okkur úr ef við óttuðumst að hafa snert hundaskít eða hundsrass. Man einhver sigtisbotna? Þeir voru geymdir þarna, og blöð til að gera júgurbólguprufur. Þarna var líka kassi með uppskriftum og öðrum úrklippum úr blöðum. Þarna var smápeningakrukkan líka geymd. Það var ekkert smámál þegar við Ína (eða var það kannski Krummi eða Þóra?) stálum tveimur krónum til að kaupa tvær karamellur í sjoppunni en rákum okkur óvart í fat með matarleifum þegar við vorum að stela krónunum og brutum það. Einhvers staðar þarna geymdi pabbi líka fátæklegt verkfærasafn sitt (skrúfujárn og tangir).

Eftir því sem ofar dró varð dótið sjaldnotaðra, til dæmis berjatínur, leifar af mekkanói strákanna, skrúfusafn heimilisins og annað skran sem mamma tímdi ekki að henda.

Svo verð ég að lýsa skotinu. Það var á hægri hönd þegar gengið var inn í búrið, myndað þar sem innbyggðu skáparnir í herberginu suðurí sköguðu inn í búrið. Upplagt hefði verið að setja djúpar hillur í skotið til að gera það örlítið aðgengilegra sem geymslupláss en það var aldrei gert. Í stað þess var dóti staflað þar upp við vegginn, ýmist í kössum eða pokum. Þetta voru t.d. gömul föt og tuskur, blöð og tímarit í kössum og fleira. Einhvern tíma var sett þarna gömul mubla, svokallaður rúmfataskápur, sem fylltist fljótt af fötum. Best man ég eftir nokkrum kjólum af Önnu móðursystur minni; líklega hafa þeir verið frá sjötta áratugnum. Þetta man ég af þeim: rauð og svartköflóttur úr þunnu silkikenndu og hömruðu efni, með hringskornu síðu pilsi og þröngum hálflöngum ermum. Svartur kjóll, svipaður í sniðinu, með örlitlum grænum doppum, þykkt gljáandi silkikennt efni. Grá- og hvítyrjóttur kjóll með víðu pilsi og stuttum ermum. Við vorum oft að druslast í þessum kjólum í leikjum og enduðum á að eyðileggja þá með því að reyna að sauma upp úr þeim þegar við urðum stærri.

Við gaflinn á rúmfataskápnum var kartöflupokinn geymdur (25 kg eða 50?) og þegar fór að minnka í honum varð til ágætt sæti, með gaflinn sem bak. Þarna sat ég löngum í frístundum og blaðaði í gömlum eintökum af Samtíðinni sem þarna voru í kassa. Má til með að segja svolítið frá efni sem ég man úr þessu ágæta tímariti:

1. Dægurlagatextar (t.d. Söngur villiandarinnar sem kom út á okkur frænkum tárunum).
2. Einhvers konar heilræðaþáttur, minnir að "Freyja" hafi verið ráðgjafinn. Þetta voru vandamál eins og: "ólétt en hrædd um að maðurinn minn eigi ekki barnið" eða "hrædd um að maðurinn minn haldi fram hjá mér" eða "maðurinn minn er vondur við mig" eða "tengdamamma er hræðileg" o.s.frv.
3. Tískuþáttur - myndir og ráðleggingar, t.d. að rauðhærðar ættu að klæðast grænu en ekki rauðu, hvað virkaði grennandi o.s.frv. Líka heimatilbúnir maskar, heimatilbúin leikfimi og þess háttar. Líklega hafa megrunarkúrar verið byrjaðir þarna.
4. Framhaldssögur - man sérstaklega eftir einni um konu sem langaði svo óskaplega til að viðhalda æskunni að hún lagði af stað í geimferð og ætlaði að spila einhvern veginn á afstæðiskenninguna - en það endaði með ósköpum þannig að hún fór að eldast með ógnarhraða og varð held ég loks að dufti.

Fleira get ég nú ekki rifjað upp í fljótu bragði en sé að það væri þess virði að fara í Þjóðarbókhlöðuna og kíkja á þetta.

Kartöflupokinn góði kom sér líka vel ef maður þurfti að fara í fýlu. Ég man það til dæmis vel þegar ég var að glíma við þá skelfilegu þraut að taka til láns í Talnadæmunum. Þá var gott að fara inn í búr, skella á eftir sér og grenja hraustlega sitjandi á kartöflupokanum - kannski hef ég svo gripið í Samtíðina þegar tárin fóru að sjatna.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home