23.9.05

Árstíðir

Ég hef tekið eftir því að ég sveiflast alveg rosalega eftir árstíðum. Byrjum svona undir lok október. Þá fer ég að hlakka til jólanna, þó að slíkt væri bannað í mínu ungdæmi á þessum árstíma. Svo verð ég jólagal í desember, sérstaklega eftir að ég fór að búa til jólakort fyrir nokkrum árum. Þetta rennur svo af mér eftir áramótin og þá skil ég ekki í þessu fári öllu og verð bara fegin að geta hafið nýtt og skrautlaust líf. Janúar líður nokkuð settlega, svo tek ég gjarnan öskudagskipp með stelpunum mínum. Þá nálgast páskar og þá ber ég inn í hús og upp á svalir ógrynni af páskaliljum, gul kerti og servíettur (þó bara inn í húsið) o.s.frv. Framdi einu sinni algjöra skreytingasprengju um þetta leyti í sumarhúsi fjölskyldunnar, hænuegg, mosi úr garðinum o.fl., alveg hrífandi! Fæ svo kast yfir páskaliljum í garðinum í apríl/maí og svo annað enn kröftugra yfir túlípönum í maí/júní. Þá kemur sumarleyfisfiðringurinn, kannski kaup á útilegudóti eða lega yfir líklegum sumardavalarstöðum á Netinu. Svo fríið sjálft, yfirleitt mjög skemmtilegt - en mikill feginleiki þegar allt kemst í réttar skorður í ágúst. Þá byrjar berjatínsla - og þá mega menn fara að vara sér eins og danskurinn sagði forðum - ég veit ekki neitt yndislegra en að komast í berjamó á bernskuslóðirnar. Svo er rifsið í heimagarðinum - í ár hafði ég svo mikið að gera að það lá bara óbætt í garði - eða hvernig maður orðar það - sem sé ekkert tínt. Nú er fremur rólegur tími, læt nægja að kveikja á kertum og hafa fallegar (bleikar) servíettur við (bleikan) blúndudúkinn. En ég finn að bráðum fer ég að rúlla niður í jólafílinginn - enda bækurnar bráðum komnar í búðirnar.

Skammdegið er allt í lagi í þannan endann, eins og að hjóla niður brekku - erfiðara upp brekkuna - eftir gleðina í janúar.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home