5.7.06

Áhrifavaldar/-atvik í lífi mínu

Það er þáttur í útvarpinu núna með heiti nálægt þessu þar sem þjóðkunnugt fólk (nema hvað!) segir frá áhrifavöldum sínum. Heyrði í gær part af Pétri Gunnarssyni sem ég hefði viljað heyra allan og nú áðan alla Bryndísi Skram (sem var óþarflega mikið, hún er margbúin að segja þetta í glönsurunum blessunin en tónlistin svo sem ágæt).

Ég fór að rifja upp, svona fyrir mína parta, því það hlýtur að mega þó að maður sé ekki frægur. Einhverra hluta vegna staðnæmdist ég við fyrsta leikritið sem ég man eftir að hafa séð, kannski af því að ættmenni mín og nágrannar komu þar mjög við sögu. Þetta var ærslaleikurinn Klerkar í klípu. Leikstjóri var Erlingur Gíslason, alveg guðdómlega fallegur þá. Með aðalhlutverkið, prestsins, fór Jón faðir minn. Ég gleymi aldrei nærfatasamfellunni sem hann skrýddist mestan part leiksins. Þannig stóð á því að frést hafði að á sýningu suður með sjó hefði presturinn misst niður um sig nærbuxurnar og siðsamir bændur norður í Hrútafirði vildu ekki hætta á neitt slíkt, þó að eftir á að hyggja sé augljóst að slíkt atvik hefði aukið mjög á skemmtigildi sýningarinnar (sem var þó ærið fyrir, fannst mér a.m.k.).

Aðrir helstu leikarar voru: Lára Helgadóttir símritari í Brú (prestsfrúin, létt á bárunni), Jón Kvaran sömuleiðis símritari, sama stað (biskup), Þórbjörg Kvaran póstafgreiðslumaður (piparjómfrú), Erlingur sjálfur (sjarmör, fornvinur prestsfrúarinnar). Að auki man ég mjög vel eftir Magnúsi á Stað í sínu litla hlutverki, hann lék afar ógvekjandi innbrotsþjóf sem rotaði prestinn (Jón á Melum). Það var á því andartaki sem ættingi minn í salnum greip aðeins inn í sýninguna.

Þetta var Nonni frændi. Hann spurði móður sína hátt og skýrt svo heyrðist um allan salinn: Mamma, af hverju barði Maggi á Stað Jón í hausinn? Nonni hefur alltaf verið mikill raunsæismaður, það má segja að það hafi snemma beygst krókurinn. Móðir hans var rétt búin að þagga niður í honum þegar hann tilkynnti henni að nú þyrfti hann að pissa öllu gosinu sem hann var búinn að drekka og hún varð að þræða sig milli sætaraðanna með hann við lítinn fögnuð salarins.

Það þarf ekki að taka það fram að við systurnar, frænkur hans, skömmuðumst okkar niður í tær þar sem við sátum þægar og stilltar í ljósbláu nælonkjólunum með þremur pilsunum, gjörsamlega heillaðar af sýningunni.

Web Counter

1 Comments:

At 06 júlí, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

það er alveg ótrúlegt hvað þið Ína munið, eins og svona hlutverkaskipan ég man reyndar eftir pabba þínum á samfellunni- mig rámar líka í að ég hélt að sýning hefði farið í vaskinn og var alveg í öngum mínum þegar þeir bræður voru saman á sviði og pabbi þinn kom inn á röngum stað en þeir redduðu sér alveg snilldarlega út úr því og hlógu mikið á eftir - maður lærði alltaf þessi leikrit utan að á æfingatímanum en að ég muni þetta í dag GLÆTAN
frænkukveðja Elsa

 

Skrifa ummæli

<< Home