17.8.06

Hentirðu sósunni ...?

Ég sá í ræktinni í morgun brot úr raunveruleikaþætti, innlimað í þátt Mörtu Stewart sem að þessu sinni snerist um "roasting". Raunveruleikaþátturinn er um kokk sem reynir að kenna ungmennum kokkamennsku og um alla þá miklu konflikta sem við það geta skapast. Brotið hófst á háværri, reiðiþrunginni upphrópun ungs manns: Hentirðu sósunni! - Auðvitað; enginn fær að stinga puttanum í sósu hjá mér, hreytti kokkurinn út úr sér. Svona héldu þeir áfram að þrasa dágóða stund um sósuna en þá var brotið guði sé lof búið og Marta tók við aftur, ekki svo sem að það hafi verið nein sérstök skipti.

Sósudramatíkin plús roast-þema Mörtu rifjaði upp fyrir mér raunverulegt sósu- og roast-atvik af heimili mínu. Þetta var á gamlárskvöld fyrir nokkrum árum. Ég var með svínasteik með pöru í aðalrétt, eiginlega í fyrsta skipti sem ég spreytti mig á því, og hafði tekist svona ljómandi vel, paran stökk og allt það. Ég var búin að hella soðinu í pott og sía það, setja steikina inn í ofninn aftur og ætlaði að snúa mér að sósugerðinni. Sem ég sný mér við sé ég að Óli stendur kampakátur með sósupottinn tóman og tandurhreinan í lúkunum og er að þurrka hann, óskaplega glaður yfir (óvæntum) dugnaði sínum í eldhúsinu. Ég ætla ekki að reyna neitt að lýsa yfirhalningunni sem hann fékk fyrir "hjálpina".

Það er merkilegt, en svipað atvik henti á heimili systur Óla um þetta leyti. Maður hennar hugðist búa til humarsúpu og hafði í því skyni soðið humarskeljar og fleira góðgæti í stórum potti klukkustundum saman. Hann fékk frúna til að hjálpa sér að sía dýrmætt soðið frá skeljunum og er rétt að snúa sér við þegar hann sér að hún stendur með pottinn tóman og er að þurrka hann en soðið, og þar með súpan, farið í vaskinn.

Nokkru áður en þessi atvik urðu gerðist það, á nær sama tíma, að systkinin voru send út í búð og áttu m.a. að kaupa niðursoðna tómata en komu til baka með Hunts-tómatasósu í dós, og þótti okkur "svilunum" mikil heimska.

Það er margt líkt með skyldum.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home