12.7.06

Útréttingar mínar

Það eru einhvers konar álög á mér hvað það gerist oft þegar ég kaupi eða ætla að kaupa eitthvað eða tek að mér að útvega eitthvað, redda hlutunum, að eitt og annað bregst í því sambandi. Ég get strax tekið saman dálaglegan lista:

1. Þvoði dýnuverið fyrir mömmu og komst að því á eftir að það var úr ull, ekki bómull. Eftir þvottinn hefði það þjónað vel sem martröð þæfingakellingar (sem býr til sjöl, mottur, jafnvel glös úr þæfðri ull). Ég með óþvegna verið inn í Fen (hef áður lýst þeirri bílferð) þar sem ég panta annað sömu stærðar. Sæki það skömmu síðar, set það utan um, en því miður of stórt! Aftur inn í Fen og panta annað ver sem átti að verða tilbúið eftir viku. Hef ekki heyrt af því enn.

2. Keypti hjól handa stelpunum um daginn. Var harðneitað um leiðarvísi og varð hundfúl.

3. Keypti hengirúm í sumar og lét einhvern strákbjána telja mér trú um að örmjótt nælonband dygði alveg til að halda því uppi. Það sannaðist í gær að það dugir ekki. Þarf því að fara aðra ferð í Húsasmiðjuna.


4. Keypti í IKEA lítið fartölvuborð sem ég get staðið við. Gott og blessað, ef það væri ekki svo létt og valt að ég þori ekki að setja tölvuna á það!

5. Keypti mér langþráða matvinnsluvél um daginn. Var á hraðferð að kvöldlagi og ákvað að taka sénsinn og kaupa síðasta eintakið í búðinni. Fann að það var smá kaupstaðarlykt af búðarkonunni en hugsaði með mér að það væri skiljanlegt. Ef ég þyrfti að vinna alla daga og kvöld líka í gluggalausu rými í Kringlunni myndi ég örugglega ekki halda það út nema rallhálf að minnsta kosti hálfan fimmtudaginn. Jæja, þegar ég kom heim með gripinn kom í ljós að hálfa konan hafði gleymt að setja leiðarvísinn í kassann. Eftir miklar pælingar komst ég að þeirri niðurstöðu að rifjárnsskífurnar gætu ekki fúnkerað með þeim búnaði sem kom upp úr kassanum. Ég átti leið austur í bæ daginn eftir og kom við í Kringlunni og fékk skífuna sem vantaði fyrir rifjárnin og leiðarvísinn. Ég fékk ekki að hitta hálfu konuna. Hún var veik!

Web Counter

3 Comments:

At 13 júlí, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Hæ var að lesa þeta skemmti mér konunglega ( ekki hlegið eins mikið lengi). Ha ha

 
At 13 júlí, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Gleymdi að þetta var ég he he

 
At 26 júlí, 2006, Anonymous Nafnlaus said...

Viðkoma að Melum á sunnudaginn var á slaginu tvö í brakandi blíðu (og allir á brókinni) og þar stóð kunnuglegur bíll á hlaði, opið dagblað dagsins á garðborði, en ekki sála... :o(
Reynum aftur síðar...

 

Skrifa ummæli

<< Home