Einn í Hafnarfirði
Ég get ekki neitað því að það var með örlitlum ugg sem ég samþykkti að panta síma handa afmælisbarni gærdagsins á Netinu, nánar tiltekið hjá Farsímalagernum. Og af því ég var nú farin að spara svona með netviðskiptunum ákvað ég að spara mér heimsendingarkostnaðinn og sækja símann sjálf - í höfuðstöðvar fyrirtækisins að Miðhrauni 14 í Garðabæ. Pöntunin gekk alveg smurt, gleypt við kortanúmerinu og allt það og mér ráðlagt að prenta út síðuna þar sem ég gekk frá pöntuninni, sem ég gerði. Vopnuð þessari síðu hélt ég svo í Garðabæinn síðdegis í dag. Reyndar var ég búin að reyna að hringja til að tékka á því hvort hægt væri að sækja símann á einhvern stað nær mannabyggð en þá mætti mér undarlegasta símsvörunarapparat sem ég hef kynnst: Ýttu á 1 til að ná sambandi við farsímalagerinn eða Hans Petersen - ég ýtti á 1. Þá kom: Ýttu á 1 til að ná sambandi við verslanir Farsímalagersins. Ég nennti ekki að bíða eftir frekari sundurliðun apparatsins, enda að verða of sein með fermingarbarnið í skraf og ráðagerðir á hárgreiðslustofu.Að sjálfsögðu komst ég ekki í Miðhraun í Garðabæ fyrr en eftir smákrók til að njóta útsýnisins við Vífilsstaðavatn - við kipptum okkur ekki mikið upp við það mæðgurnar. Þegar ég orðaði það hugboð mitt að kannski væri engan síma að hafa í þessu nápleisi ákváðu dæturnar að bíða í bílnum meðan ég færi inn. Þeim leiðist svo þegar ég geri ískaldar, gáfulegar og hæðnislegar athugasemdir yfir vondri þjónustu.
Á dyrunum var miði: Verslunin er hætt, farið í verslanirnar í Hafnarfirði, á Laugavegi 178, Kringlunni, Akureyri... Ég ákvað samt að tölta upp stigann og fann þar skrifstofufólk fyrirtækisins. Já, því miður höfðu þeir gleymt að breyta netviðmótinu þegar þeir lögðu búðina niður, svo enn var fólki vísað á þennan stað, og því miður áttu þeir engan svona síma á lagernum þarna en einn í Hafnarfirði!!! Ég spurði manninn hvort honum fyndist virkilega hægt að fara fram á það, eftir að ég væri búin að sveima óratíma um í leit að þessari holu (nefndi ekki Vífilsstaði), að ég þyrfti svo að hrekjast í Hafnarfjörð líka. Ég nefndi líka að ég væri í vinnu hjá sjálfri mér svo ég væri ekki einu sinni að sóa annarra tíma í þetta. Manngreyið féllst á að líklega væri sanngjarnt að ég fengi símann sendan heim eftir þessa fýluferð. Merkilegt nokk þá kom ungur efnispiltur með símann nú um kvöldmatarleytið.
Aðallærdómurinn sem ég dreg af þessari sögu, fyrir utan það hvað þjónusta fyrirtækja hér er yfirleitt arfavond og menn illa búnir að læra á Netið, er þetta: Það er með ólíkindum hvað verslunarfólki finnst alltaf sjálfsagt að maður sé tilbúinn að endasendast milli bæjarhluta þegar vara er búin á einum stað en til á öðrum (eða maður er sendur á rangan stað eftir henni). Það er ekki blikkað auga yfir því að skór eru búnir í Kringlunni en til í Smáralind eða öfugt, eða peysur eru uppseldar á Laugavegi en til í Glæsibæ. Heldur það að maður geri hvort eð er ekkert annað en keyra stefnulaust um göturnar allan daginn?
Veit það, það er fáránlegt að panta eitthvað á Netinu og sækja það svo sjálfur. Eina afsökunin er að akkúrat þessi tegund fékkst ekki í Kringlunni, þar sem við leituðum á laugardaginn, og við héldum að svona fengist síminn fyrr.
2 Comments:
Tek heils hugar undir þennan pistil þinn Helga mín. Þá var betra þegar pantað var úr Kaupfélaginu á Borðeyri í gamla daga, þá voru reglulegar áætlunarferðir og svo féllu ferðir við og við sem fréttist af.
Við hjónin fórum í Vídd (flísabúð) um daginn og keyptum nokkrar gólfflísar og viti menn það þurfti að sækja þær í Hafnarfjörð og ég frétti af fólki sem var að kaupa parkett og vantaði örfáar spýtur til viðbótar (var að sjálfsögðu búið að kaupa parketið á einum stað og sækja það á annan) það mátti keyra Í Hafnarfjörð og panta sendiferðabíl þangað eftir spýtunum því verslunin treysti því ekki að bílstjóri sem væri pantaður í versluninni á afhendingarstað skilaði vörunni heim til fólksins. Ætli þetta auki hagvöxt?
Kveðja og hlakka til fermingarinnar.
Ína
mér finnst bara skrýtið að þessi beiðni þín um að fá símann sendan heim hafi ekki verið lögð fyrir nefnd... Drekkhlaðinn prófessorum í almannatengslum, markaðsmálum, internetinu og almennri sölumennsku.
Greinilega toppfólk á Farsímalagernum - þ.e.a.s. allavega betra en gengur á gerist á Íslandi, kæra Íslandi.
Í USA fæ ég allt sent samdægurs - hvort sem það eru föt, bækur, tæki eða drykkjarföng. Þeir hjá FreshDirect (þar sem við pöntum vatnið okkar og kókið (ódýrara og praktískara en í local matvörubúð)) raða meira að segja í ísskápinn hjá okkur. Talandi um lúxus.
Ég elska samt Ísland. Næst þegar þú ert að panta e-ð, prófaðu að taka það frá á Bjögga Thor, skal lofa þér að það verður ekkert vesen.
Skrifa ummæli
<< Home