8.5.08

Kóngaheimsóknir

Það var einu sinni kóngur sem heimsótti annan kóng. Allt var voða flott hjá gestgjafanum, fínn matur, gott herbergi, gullhnífapör og allt þetta sem fínir kóngar eru með, en það sem gestinum fannst undursamlegast var að á klósettinu (kannski kamrinum því þetta er svo langt síðan) þurfti hann ekki að skeina sig sjálfur, það kom bara bursti eða einhver græja og sá um þetta. Svo fór kóngurinn heim og það leið dálítill tími og þá þurfti hann að bjóða til sín kónginum sem hafði boðið honum. Hann vildi hafa allt jafnflott en vissi ekki hvar maður fengi sjálfvirkt skeiniapparat svo hann lét útbúa kamarinn sem var ætlaður hinum konunglega gesti þannig að fyrir neðan opið beið hirðmaður með bursta og líkti eftir sjálfvirkum búnaði. Svo kom gesturinn og allt lék í lyndi. Hann var auðvitað voða glaður yfir þessum búnaði, en forvitinn um leið að sjá hvernig þetta virkaði, svo hann beygði sig yfir opið einn daginn til að kanna þetta, rétt eftir að hafa lokið sér af. Það kom fát á karlinn undir, hann hélt að kóngurinn hefði aftur verið að hægja sér og rak því burstann upp, beint í andlitið á kónginum, því miður með leifum síðustu athafnar á.

Skil ekki hvers vegna mér datt þessi saga í hug einmitt núna. Lesendur mega svo giska á hver sagði mér hana upphaflega.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home