Gosflöskustærð og aðrar stærðir
Hæfileg stærð gosflösku, fyrir okkur hér á þessu heimili að minnsta kosti, er líklega 3,3 dl, stærð gömlu "stóru" glerkókflöskunnar. Hér er drukkið talsvert af þessu glæra sódavatni og dóti, og það er reglan frekar en undantekningin að góður slatti verður eftir í hálfs lítra flöskunum - og fólk er ótrúlega tregt til að geyma slíkan slatta til að drekka daginn eftir. Óli er búinn að leysa þetta hvimleiða vandamál fyrir sitt leyti með því að fá sér sódastrímtæki.Þegar "stóra" glerkókið kom fyrst í sjoppunni fyrir norðan var algengt að hjón sameinuðust um eina, þetta þótti svo mikið. Ég man meira að segja eftir nokkuð stórri fjölskyldu sem keypti eina flösku og fékk svo rör á mann. Svo liðu nokkur ár og þá kom lítersflaskan, og þótti geggjun. Þó var ein stúlka í sveitinni sem varð forvitin, og kom og bað um eina, drekka hana hér og skila glerinu. Þetta þótti sýna vel óstjórn hennar í mat og drykk, sem hún bar reyndar utan á sér blessuð. Núna mundi þetta ekki hneyksla nokkurn mann.
Þetta með hæfilegu stærðina minnir mig svo aftur á dagblaðsgrein sem ég las einu sinni þegar ég var stödd í Englandi og fjallaði um kosti tylftakerfis og gömlu bresku mælieininganna umfram tuga- og metrakerfi. Einn kosturinn var t.d. hvað útkoman þegar deilt er í tólf verður í flestum tilfellum bærilegri tala en þegar deilt er í tíu. Höfundur hélt því líka fram að "pint" sem bjórmælieining væri byggð á eldfornum reynsluvísindum; það magn væri akkúrat það sem dygði til að fylla týpíska breska bjórvömb þannig að hvorki væri of né van, en hálfur lítri passaði ekki. Samkvæmt orðabókinni minni er breskt "pint" 0,5683 lítrar.
1 Comments:
Best er naturligvis (eins og Anders And sagði forðum tíð) að láta kókið bara alveg eiga sig!
Knúsknús
Skrifa ummæli
<< Home