Gamli og nafni
Það munaði ekki miklu á nöfnum þeirra föður míns, Jóns, og föðurbróður, Jónasar. Ég veit ekki hvort það var þess vegna, en yfirleitt ávörpuðu þeir hvor annan "gamli" svona dagsdaglega. (Kannski hafa þeir notað eitthvað kröftugra í orðasennum.) Jónas var auðvitað í meiri rétti, rúmlega ári yngri, en samt svaraði pabbi alltaf í sömu mynt. Mér fannst fyndið að komast að því seinna að í fyrndinni bjó maður á Melum sem hét þessu nafni, ef eitthvað er að marka Grettis sögu.Það var ekki nóg með að þeir deildu með sér þessu "gælunafni" heldur áttu þeir sér sameiginlegan nafna, Jónas kaupfélagsstjóra. Þar var Jónas augljóslega í meiri rétti sem fyrr, en mér skilst að "réttur" pabba hafi byggst á því að þegar þeir voru strákar, hann og kaupfélagsstjórinn sem síðar varð, voru þeir báðir kallaðir Jonni. Sönnun á Jonna-nafni pabba er áritun á bókinni Seytján ævintýri sem lengi var til heima: Til Jonna á jólunum ... - því miður man ég ekki ártalið.
Og í lokin - lík nöfn systkina: Dætur mínar eru kallaðar Stína og Steina. Frændi þeirra, fróður um nöfn og málfræði, spyr oft þegar hann hringir hingað og önnur hvor þeirra svarar: "Hvort er þetta í eða ei?"
3 Comments:
Þakka þér þetta Helga mín. Eins og alltaf dettur mér eitthvað í hug sem tengist skrifum þínum. Þú manst kannski að pabbi fór í kviðslitsaðgerð fyrir nokkuð mörgum árum. Þegar hann var kominn upp á sjúkrastofu morguninn eftir aðgerðina heyrist sagt í næsta rúmi: „Ert þetta þú nafni minn, ég hélt ég væri kominn til himna". Þarna lá þá Nafni blessaður og ég held að báðir hafi notið að vera þarna saman.
Góðar kveðjur til allra.
Ína
Takk kæra systir og endilega haltu áfram, við bíðum spennt.
Kveðja,
Didda systir.
Takk, báðar tvær. Það er einmitt svo skemmtilegt þegar maður fer að rifja eitthvað svona upp, hvernig það kveikir nýjar sögur.
Skrifa ummæli
<< Home