29.10.09

Þrælahald eða hvað?

Ég er mikil föndurkona, eins og komið hefur fram nokrum sinnum í þessum pistlum sem gerast nú æ strjálli, en það er önnur saga. Ég heklaði á útmánuðum ljómandi fallega körfu úr hvítu bómullargarni. Til að gera hana stífa vætti ég hana í veggfóðurslímsgraut og lét hana þorna í nokkra daga á einum af pottunum mínum. Ég ætla ekki að lýsa verkferlunum við gerð körfunnar nánar en nú prýðir hún borðið á nýja baðinu uppi. Garnið í hana átti ég, en ég þurfti að leggja út hátt í 2000 kr. fyrir veggfóðurslíminu (á reyndar nóg eftir í svo sem 20 körfur).

Svo gerist það í dag að inn um lúguna kemur ruslpóstur úr Rúmfatalagernum og þar á baksíðunni, með jóladóti, er mynd af ÞREMUR hekluðum körfum í setti, öllum MEÐ LOKI, á 1400 kr. Ég tók andköf meðan ég reyndi að ímynda mér í hvers lags þrælabúðum þessar körfur væru gerðar, handunnar að sjálfsögðu, eða hvað? Ég fór og gúglaði "crochet machine" (hekluvél). Og viti menn! Það ruddust upp á skjáinn upplýsingar um alls kyns hekluvélar til sölu; og virtust margar vera upprunnar í Kína (þeir eru mikið fyrir hekl, Kínverjar, hver man ekki dúllurnar á sófasettinu sem allir erlendir þjóðhöfðingjar voru látnir setjast í?)

Það eru því ekki þrælar með eina heklunál í krepptum höndum sem búa til allar þessar hekluðu körfur, heldur þrælar sem standa við hekluvélar. Svona til að vera viss um að mannshöndin væri þarna einhvers staðar nærri gúglaði ég líka "crochet robot" sem samkvæmt íðorðanefndunum útleggst "hekluþjarkur" en fann eintóma heklaða þjarka (crocheted robots), misfagra og -krúttlega.

Ekkert fannst um hver það var sem fann fyrst upp svona vél og væri vitneskja um það vel þegin.

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home