27.3.09

Af hekli

Ágæt vinkona mín sem ég hitti allt of sjaldan kom í heimsókn um daginn og eftir að hafa snætt grænmetisrétt og fleira góðmeti leiddi ég hana til efri stofu og þar fór fram hannyrðasýning og -umræða. Hún greip heklunál og fór að fikta og þá fórum við að tala um það hvað hekl er ótrúlega sniðug uppfinning. Prjón er auðvitað frábært en hafið þið hugsað út í einfaldleikann og snilldina í heklinu? Ein nál með haki og bara ein lykkja undir hverju sinni. Ekkert lykkjufall, enginn troðningur, bara snúningur inn og út um eina lykkju og þá er það komið!

Í kringum 1970 var hekl mikið í tísku, að minnsta kosti í Burda og í Hrútafirði. Þá heklaði ég heil reiðinnar býsn, eins og ég hef reyndar getið um áður. Svo rammt kvað að þessu að systur mínar voru farnar að kalla mig Heklu, sem var ótækt nafn í þá daga. Ég hef nær eingöngu haldið mig við heklaðar flíkur, ekki verið mikið í dúkunum, en þó man ég eftir að hafa heklað eldavélahelludúllur í handavinnu í barnaskóla. Önnur ágæt vinkona mín sem var að koma sér upp sumarbústað ætlar einmitt að koma sér upp slíkum dúllum - okkur finnst það með því ó-2007-legra sem hægt er að finna.

Ég er með ýmis verkefni í gangi með heklunálinni núna en ætla samt ekkert að ræða þau neitt nánar. Reyndi að gúgla upp myndir af hekluðum eldavélardúllum ef fólk skyldi ekki muna hvernig þær fúngera en fann engar. Hins vegar fann ég ýmis hekluð furðuverk, t.d. þetta:

http://declubz.com/blog/wp-content/uploads/2008/06/crochet-pattern-ice-cream.jpg

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home