Bú og bestu bökuðu kartöflur "ever"
Á Melum hélst óslitin búhefð frá því rétt eftir miðja tuttugustu öld og til aldamóta að minnsta kosti. Ég hef ekki séð merki um lifandi bú á rölti mínu þar undanfarin ár. Hér er átt við "leikjabú", bú barna, ekki alvörubúskap, þó að stundum hafi hvarflað að manni upp á síðkastið að hann væri einnig að leggjast af með öllu, en ég fer ekki lengra út í þá sálma. Ekki veit ég hver fékk þá snilldarhugmynd að fara með búið undir þak, nánar tiltekið í gömlu fjárhúsin. Ég man ekki einu sinni hvar við reyndum fyrir okkur með bú úti við áður en flutt var inn.Þetta var nokkuð týpískt drullubú, eftirlíking af heimilishaldi með húsfeður óhjákvæmilega í burtu því strákar voru yfir drullubúskap hafnir. Innanstokksmunir voru skápar sem upphaflega voru kassar undan eplum eða appelsínum og einnig minnir mig að við höfum fengið alvöru skáp sem var keyptur á uppboði á Brandagili en reyndist ekki henta í íbúðarhús þegar til átti að taka. Í skápana var raðað eldhúsáhöldum sem voru aflóga dót af heimilunum, og umbúðum utan af kakói, sykri og annarri þurrvöru sem við fylltum af mold og notuðum í bakstur. Svo reyndum við að gera heimilislegt með því að setja dúka á "borð" og ofan á skápana og sóleyjar og fífla í flöskur eða krukkur ofan á. Matreiðsla einskorðaðist nokkurn veginn við bakstur, alls konar kökur úr moldardeigi, skreyttar sóleyjum, sem litu svo ótrúlega vel út meðan þær voru sléttar og blautar en sínu verr daginn eftir þegar þær höfðu þornað og sprungið og sóleyjarnar visnað. En þá var bara tekið til við nýjan bakstur með opnum huga og óbilandi bjartsýni á árangurinn. Ég man ekki nákvæmlega hvernig leikirnir fóru fram en yfirleitt var þetta þannig að við þessar elstu og helstu (ég segi eins og Hendrik Ottósson: "við helstu strákarnir") vorum húsmæður sem heimsóttu hver aðra og drukku kaffi og þurftu að baka og hafa fínt hjá sér og sinna börnunum sem voru þá yngri krakkarnir. Stundum reyndist ekki unnt að skikka þá í hlutverkin og þá varð bara að ímynda sér eitthvert krakkastóð.
Nöfn okkar aðalpersónanna voru mjög mikilvæg og eins og við höfum oft rifjað upp, frænkurnar, spratt stundum upp nokkuð hörð deila um það hvor okkar Ínu skyldi fá að heita Ásdís Fjóla, en það þótti okkur nafna fegurst á þeim árum.
Ég fór að velta því fyrir mér áðan hvers vegna við fórum með búið inn í fjárhúsin. Líklega hefur það verið tíðarfarið þessi ár sem rak okkur inn. Þetta var á hafís- og kalárunum með þrálátri norðanátt, ýmist með þokum og rigningarhraglanda eða bjartri og hvassri en óhjákvæmilega kaldri, á hvorn veginn sem var. Þegar vel viðraði bökuðum við auðvitað úti og "drukkum kaffið" þar, en ósköp gat verið notalegt að hlusta á rigninguna berja þakið og geta leikið sér eins og ekkert hefði í skorist inni í skjóli húsanna.
Ég má til með að skjóta því hér inn að einu sinni fékk ég að heimsækja bú frænkna minna á Reykjum sem var "útibú". Þar sá ég dásamlega lausn á vatnsvandamálinu. Þær höfðu orðið sér úti um stóran matarolíudunk úr mötuneytinu í Reykjaskóla og skorðuðu hann þannig að stúturinn sneri niður. Þegar togað var í tappann streymdi vatnið út eins og úr krana.
Næstu kynslóðir á eftir okkur þokuðust smám saman út með bú sín. Þannig man ég eftir ummerkjum bús í gamla haughúsinu (löngu búið að fjarlægja hauginn), en austurhlið þess var nær alveg opin. Bú var líka rekið í tótt gamla hesthússins hans Jónasar frænda norður á heimatúninu og, að því er Reynir Þór tjáir mér, fyrir ofan fjárhús Sigga frænda, þar sem vöfflujárn móður minnar ku liggja grafið. Tvö þau síðarnefndu eru hrein "útibú", enda tíðarfar farið að batna verulega á þeim árum.
Hvað varð svo um gömlu fjárhúsin? Þau voru fyrst brennd og síðan rifin og sléttað yfir. Ég var fyrir norðan þegar þetta var gert og fór með litlu strákunum hans Sigga, Eia og Finni, að skoða rústirnar meðan enn rauk úr þeim. Þá fékk ég góða hugmynd. Við fórum og náðum okkur í nokkrar kartöflur, vöfðum þeim inn í álpappír og grófum niður í glóðina. Svo krökuðum við þær upp úr eftir klukkutíma eða svo og borðuðum af bestu lyst með miklu smjöri. Þær voru undurgóðar, kannski var það taðkeimurinn eða bara kringumstæðurnar. En þetta er sem sé uppskriftin að bestu bökuðu kartöflum í heimi: Takið ein gömul fjárhús full af taði og gömlu timbri og brennið. Bíðið þar til hætt er að loga en enn rýkur. Grafið þá kartöflurnar, klæddar álpappír, niður í glóð og bíðið ca klukkustund eða eftir stærð kartaflnanna. Snæðist helst á staðnum með miklu smjöri, endilega í félagsskap tveggja lítilla, forvitinna og skemmtilegra frænda.
3 Comments:
Fyrsta búið sem ég man eftir Helga mín var við Bænhústóftina og þaðan fluttum við inn í Lambhúsið líklega höfum við fengið að fara þangað inn þegar verið var að mála fjósið og því ekki gott að vera með krakkaskarann yfir sér við málninguna. Þessi skrif kalla fram margar ljúfar minningar frá bústörfunum.
Kv. Ína
Sæl frænka.
Þarna skipta máli þessi tvö ár aldurs og þroska sem þú hefur fram yfir mig. Ég man barasta ekkert eftir Bænhústóftarbúi.
Blessuð,
Það sem var hentugast við braggabúið var safn gamalla heimilistækja og alls kyns skápa/hillna, og það að bæði var hægt að vera fyrir utan ef viðraði og leita skjóls inni í bragganum.
Þarna lékum við okkur öll á níunda áratugnum, óháð kyni, þótt óneitanlega hafi systir mín verið langduglegust við heimilisstörfin!
Bestu kveðjur,
Reynir Þór
Skrifa ummæli
<< Home