Valdagleði og hroki
Þegar ég vann hjá Ríkisútvarpinu, þeirri góðu stofnun sem litlu drengirnir í Flokknum hafa haft sem fyrsta mál á stefnuskránni síðan ég veit ekki hvenær að útrýma, þá drakk ég stundum kaffi með manni sem var ættaður frá Stokkseyri og kenndi sig þar með við Flóann. Hann reifaði einu sinni mjög skemmtilega fyrir mér kenningu sem hann hafði rekist á (í gömlum Skírni minnir mig) um áhrif landslags á lýðinn. Kennningin gerði sem sé ráð fyrir því að fólk drægi dám af landslaginu þar sem það ælist upp. Á flatlendi yrði fólk til dæmis flatt í hugsun, hlédrægt, feimið og íhaldssamt. Þetta sagði kenningarlesarinn að hefði passað mjög vel við sína heimabyggð, þar hefðu stundum verið hreinustu vandræði að berja saman hreppsnefnd því enginn treysti sér til svo ábyrgðarmikils starfa. Ekki er jafn láglent á vestanverðu Vatnsnesi og á Stokkseyri, en hitt er víst að aldrei hefði það hvarflað að honum afa mínum sáluga í Gröf að bjóða sig fram til stjórnmálastarfa af neinu tagi; til þess hefði hann ekki talið sig hæfan. Sjálfhælni var eitur í beinum hans og barna hans. Yfirleitt þótti þeim ekkert verk sem þau unnu nógu vel af hendi leyst og afsökuðu flest sín verk. Þarf þó varla að taka það fram að allt þetta fólk var prýðilega vel að sér bæði til munns og handa, reyndar flest handlagið með afbrigðum, og óvenju vel hagmælt.Ég hef stundum rifjað það upp innan fjölskyldunnar hvernig þetta endemis lítillæti síaðist inn í mig í uppeldinu. Til dæmis man ég hvað mér þótti það skrítið þegar ég byrjaði að fylgjast með eldhúsdagsumræðum í útvarpi að allir þessir karlar (þá heyrðist ekki í konu) skyldu leyfa sér að hæla sér og sínum flokki og öllum hans gjörðum svona stjórnlaust. Mér þótti þetta óviðkunnanlegt og spurði hvernig stæði á öllu þessu monti og var þá sagt að þetta mættu stjórnmálamenn gera, þó að alls ekki væri við hæfi að krakkar létu svona.
Við síðustu stjórnarskipti varð mér ósjálfrátt hugsað til kenningarinnar fyrrnefndu og sjálfhælnibannsins sem móðir mín kom með af Vatnsnesinu. Ef eitthvað væri að marka kenninguna ættu núverandi íslenskir ráðherrar að vera að minnsta kosti úr miðjum hlíðum Everest. Ég held ég hafi aldrei orðið vitni að annarri eins gleði yfir fengnum völdum - um væntanleg góð verk var minna talað, Jóhanna þó heiðarleg undantekning. Spillingin og hrokinn sem valdinu fylgir kom svo heldur betur í ljós í sumar þegar forsætisráðherrann skellti stöðugt hurðum á fréttamenn með hálfgerðum fúkyrðum. Ekki var heldur laust við að rigndi upp í nefið á utanríkisráðherranum stundum. Lýsingarorðið "barnslegur" á líklega best við um einlægan fögnuð iðnaðarráðherra yfir nýfengnum völdum. Um viðmót fjármálaráðherra er best að hafa sem fæst orð.
Sjálfhælnibakterían hefur nú blindað þetta fólk svo rækilega að það fær ekki með nokkru móti komið auga á eigin sök í neinu því sem dunið hefur á þjóðinni undanfarna mánuði, hvað þá að það komi auga á einhverja sér hæfari til að leiða okkur út úr ógöngunum. Sumum virðist jafnvel meira í mun að storka okkur, sbr. embættið sem forsætisráðherrafrúin fékk óvænt og óverðskuldað eftir að landið sökk.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home