Guði sé lof fyrir jólin!
Þarf kannski varla að þakka honum; tilstandið á að heita af hans völdum og þessa undarlega getna sonar hans. Oft hafa jólin verið mér kærkomin en sjaldan sem nú. Og eftirminnileg verða þau sem t.d. fyrstu jólin í nýja risinu og fyrstu jólin í kreppunni (hvað skyldu mörg jól eiga eftir að kallast kreppujól?).Ég verð að biðjast afsökunar á því að hafa ekki sent nein jólakort, hvað þá að ég hafi búið til kort eins og undanfarin ár. Reyndar var svolítið föndrað. Ég átti nefnilega þó nokkrar næðis- og yndisstundir í desember við borðstofuborðið við að klippa út úr kartoni alveg dáindis falleg hvít tré sem eru ósköp jólaleg í einfaldleika sínum. Þau sjást ágætlega ef smellt er á efstu myndina í síðasta pistli. Það var frábært að geta snúið baki við öllu rykinu og hroðanum sem fylgdi síðasta frágangssprettinum, sett á jólalag, gripið skærin og horft svo út um hornglugga borðstofunnar á ljósin í næstu húsum eða jafnvel snjókorn falla. Trén urðu þó nokkuð mörg áður en yfir lauk og nýttust vel til smájólagjafa handa góðu fólki. (Ég er enn dofin á þumalfingri hægri handar eftir allt klippið!)
Svo er bara að óska öllum sem þetta lesa gleðilegs árs og þakka þeim fyrir að hafa þraukað með manni út það gamla.
1 Comments:
Falleg eru þau, trén hjá þér frænka mín. Óska ykkur öllum gleði og kæti á nýja árinu með kæru þakklæti fyrir öll þau gömlu góðu.
Kossar og knús til ykkar allra.
Þóra Jónasar. :)
Ps. Til lukku með risið!!!
Skrifa ummæli
<< Home