Risvandamál úr sögunni
Þetta með risvandamálið var sem sé brandari, vegna þess hversu langan tíma það tók hér í góðærinu að fá leyfi, gera nýja skráningartöflu, eignaskiptingasamning, burðarvirkisteikningu að ég tali nú ekki um arkitektsteikningu (samkvæmt skiplagi mínu) að hækkuðu risi hér á Kvisthaganum, þaðan af er dregið þetta orð, svona til að forðast allan leiðan misskilning. Nú er þetta vandamál sem sé úr sögunni. Heimasætur báðar sváfu í fyrsta skipti í sínum flennistóru herbergjumn í nótt og fjölskyldan er afar ánægð með hið nýja ris. Annað kvöld er áætlað að tilbehör verði flutt inn í nýju stofuna sem er milli herbergjanna og píparinn, sem er ekki sá áreiðanlegasti í heimi (eða eru kannski allir píparar svona?) ætlar að koma á mánudaginn og gera sturtu og vask klár; enn er bara hægt að pissa þar. Þeir fáu sem þetta blogg lesa eru velkomnir að líta inn og taka framkvæmdina út. Ég get ekki lofað smákökum eða slíku en sama ljúfa viðmóti, glaðværð og gáfulegu samræðum sem áður. Sem sé, ef ykkur er mál, að hitta okkur hér eða pissa, verið þá velkomin!
4 Comments:
Sæl kæra systir.
Hjartanlega til hamingju með risið! Hlakka til að skoða helegheitin á nýju ári.
Ástarkveðjur,
Didda.
Til hamingju elsku frænka.
Gæti trúað að fögnuður ríki í risinu, og dæturnar séu í sjöunda himni. Maður kíkir kannski við ef ferð fellur, nú er það Gilsbakki/Melar á jóladag (það á að éta gæs) en við verðum heima yfir áramótin.
Knús og kram frá frænku
Gleðileg jól
Elsa
Innilegar hamingjuóskir til ykkar allra með nýja kvistinn. Hlakka til að sjá breytingarnar fullkláraðar. Jólakveðjur til ykkar allra frá
Ínu frænku
Sæl og til hamingju með slotið, á ekki að skella mynd inn á síðuna af herlegheitunum fyrir okkur landsbyggðalýðinn sem ekki getur litið dýrðina á sunnudagsrúntinum.
Kv.
Kalli.
Skrifa ummæli
<< Home