Standardinn í sveitunum á árum áður
Húsbóndinn hér á bæ fussaði auðheyrilega þegar vinstristjórn barst í tal um það leyti sem ríkisstjórnarnefnan sáluga var að syngja sitt síðasta núna um helgina. Hann vildi meina að þá myndu allar gáttir félagslega kerfisins opnast og skattar hækka upp úr öllu valdi. Ég taldi aftur á móti að slíkt hlyti óumflýjanlega að gerast, hverjir svo sem yrðu við völd, ef við ætluðum okkur að borga þó ekki væri nema eitthvað af skuldum drengjanna "okkar". Þá nefndi hann máli sínu til sönnunar vinstri stjórnina 71. Ég lét þá hugann reika - jú, mikið rétt, það var líklega þá sem fóru að sjást einhverjir örlitlir peningar norður í Hrútafirði og bilið að minnka milli þeirrar sveitar og Reykjavíkur. Ég get nefnt svo ótal margt sem við "höfðum ekki" en talsist til sjálfsagðra þæginda í Reykjavík, að minnsta kosti hjá fólki af meðalstandi:- Ekki baðker fyrr en um 1970
- Ísskápur ekki fyrr en um það leyti
- Sjálfvirk þvottavél um það leyti líka
- Rúmgott húsnæði með sérherbergi barna og hjóna - ég hef ekki verið ein í herbergi nema kannski tvö ár ævinnar - hálfan vetur á Laugarvatni, þegar ég leigði einn vetur á Sólvallagötu, veturinn sem ég var í íbúð ömmu minnar á Skarphéðinsgötu og loks parta úr þeim sumrum sem ég var heima eftir að flutt var í nýja húsið. Í gamla húsinu vorum við þrjár, jafnvel fjórar, systur um eitt herbergi.
- Uppþvottavél sást ekki á Melum 1 fyrr en um 1980 í fyrsta lagi.
- Allur kvenfatnaður var saumaður heima.
- Prjónafatnaður var ekki keyptur.
- Heimilisbifreið - alla mína æsku áttu Melabræður einn jeppa saman, sem var afleitt fyrirkomulag - hvers vegna ætla ég ekkert að rekja hér.
- Hjónarúm - keypt ca 68 og þótti mikið bruðl, eins og hér hefur verið nefnt áður.
Sófasett - fyrst var keyptur svefnsófi - sófasett kom ekki fyrr en ca 78 og þá keypt af bróður mínum notað.
- Allt þurfti að gjörnýta, alla afganga, jafnt af mat sem öðru. Móðir mín var töluvert á undan sinni samtíð því hún notaði alla plastpoka aftur og aftur; það var lokahnykkurinn á uppvaskinu að þvo plastpoka og hengja upp á snúru í þvottahúsinu.
- Allt bakað og eldað heima, ekki keypt brauð, kökur eða kex nema í algjörum undantekningartilfellum.
Félagslega misréttið var hrópandi alveg þangað til vinstri stjórnin tók við. Alvarlegast og augljósast var það í skólamálunum, þar sem börn þurftu að vera í heimavist alveg frá upphafi skólagöngunnar og nutu ekki kennslu nema hálfan veturinn. Þetta var ekki leiðrétt fyrr en um það leyti sem yngsta systir mín, fædd 1966, var að byrja í barnaskóla. Tannlækningar virtust líka lengi vel vera munaður þéttbýlinga. Þær var farið að styrkja á árunum eftir 1970.
Sem dæmi um efnahagsleg viðmið okkar get ég tekið að Sigurjón, eiginmaður móðursystur minnar, sem var leigubílstjóri í Reykjavík var talinn stórefnamaður. Til marks um það var að hann (hún var heimavinnandi og taldist því ekki með í dæminu) gat keypt nýja blokkaríbúð í Bólstaðarhlíð sem kostaði rúma milljón (gamalla) króna.
Sú hugsun hefur orðið furðu lífseig að það hljóti að vera sjálfsagt að öll kjör og aðbúnaður sé lakari í sveitum en þéttbýli. Furðu fá ár eru síðan ég heyrði roskinn mann býsnast yfir sófasetti sem lúxus á sveitabæ, fyrirbæri sem hér í Reykjavík hefur lengi talist til sjálfsagðra þæginda.
1 Comments:
Ég get tekið undir allt sem þú segir í þessum pistli. Skólagangan var náttúrulega kapituli útaf fyrir sig, samt man ég góðar stundir þegar spurningapakkarnir voru opnaðir í lok þriggja vikna frísins (tveggja vikna í eldri deild) og við sátum og spurðum hvert annað út úr heima námsefninu, hlýddum hvert öðru yfir skólaljóðin, sumt man ég enn þann dag í dag. Ég man þegar verið var að byggja við húsið heima, við Elsa fengum herbergi saman og Þóra og Birna annað. Þvílíkur lúxus að fara úr kojunni og tvíbreiða rúminu, jú við deildum saman rúmi systurnar og Krummi svaf á dýnu í stofunni hjá mömmu og pabba. Hann fékk svo sér herbergi. Gólfefni voru lúxus að ég tali nú ekki um teppi út í öll horn. Ég man vel þegar Gústi keypti sjónvarpið og við söfnuðumst saman í stofunni hjá ykkur til að horfa á framhaldsþættina. Nú eru að meðaltali 4 sjónvörp á heimili fyrir utan tölvur, hjá mér er reyndar aðeins eitt, hef ekki fundið hjá mér þörf fyrir fleiri.
Það er gaman að velta fyrir sér hvort fólk sé ánægðara í dag og mér dettur oft í hug hún amma Þóra þegar Jón frændi þinn var búinn að setja nýja eldhúsið upp hjá henni í Brekku og það vantaði einhverja skápa, sagði sú gamla að það væri ekkert gaman að fá allt í einu, þá var hún komin yfir sjötugt.
Kveðja frá Ínu frænku í nostalgíunni.
Skrifa ummæli
<< Home