9.1.09

Súrmeti og litteratúr

Ætli það hafi ekki verið um mánaðamótin nóv-des sem ég rakst á sviðalappir í Bónus. Ég keypti umsvifalaust tvo poka sem mér taldist til að væru 24 lappir. Þetta sauð ég og fór svo með pottinn til mömmu sem hjálpaði mér að krafla utan af beinunum. Svo skar ég allt saman niður, hitaði aðeins upp aftur og hrærði vel og setti loks í form, töluvert af soði með. Ég fékk tvö stór kökuform af sultu úr þessu. Svo setti ég herlegheitin í súr, bara venjulega mysu úr Bónus, vel súra og setti út á svalir. Eftir hálfan mánuð var sultan orðin undurgóð og ég átti dásamlega stund eitt kvöldið með sjálfri mér þar sem ég naut sultunnar með rófustöppu úr óvenju sterkum og bragðgóðum rófum. Það skal tekið fram að þetta fór afskaplega vel í maga.

Þegar smiðirnir mínir voru á lokasprettinum í frágangi rissins fyrir jólin reyndi ég að vera góð við þá og fara að fordæmi móður minnar með því að gera sem best við þá í veitingum. Meðal annars bauð ég þeim sultuna góðu og þóttist viss um að annar þeirra að minnsta kosti hlyti að vilja hana því hann ólst upp á Melrakkasléttunni. Hann tók við með þökkum og hinn líka, hann átti nefnilega svo gamla foreldra sem voru úr sveit og oft með svona mat.

Og að endingu er hér svolítið dæmi um áhrif súrmetisins á bókmenntirnar: Vilmundur landlæknir var eitt sinn á ferð um Hornstrandir með Þórbergi, Þórhalli syni sínum og sænskum manni sem þeir þekktu. Þeir komu á bæ nokkurn þar sem þeir fengu að tjalda á túninu. Bóndinn vildi endilega gefa mönnunum eitthvað að borða en þar sem þeir voru vel nestaðir afþökkuðu þeir það. Ekki líkaði bónda þetta og það endaði með því að hann kom til þeirra og spurði auðmjúklega hvort hann mætti kannski bjóða mönnunum eitthvað upp úr súru. Þessa freistingu gátu þeir Vilmundur og Þórbergur ekki staðist og Vilmundi segist svo frá. "... ég segi með hug og orði: "Jú, við þökkum gott boð, ég held við stöndum okkur ekki við annað en þiggja eitthvað lítils háttar upp úr súru." (Með hug og orði I, bls. 96) Heiti ritsafnsins er sem sé runnið frá þessari frásögn. Ég ætla ekki að lýsa veislunni sem fór á eftir, bendi fólki bara á að lesa frásagnarþáttinn og í leiðinni auðvitað bækurnar báðar frá upphafi til enda. Af því verður enginn svikinn!

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home