21.1.09

Mjósti munur sögunnar

Móður mína hefur lengi langað í boðlega hillusamstæðu undir og í kringum sjónvarpið. Við gengum loks í það í gær, dætur hennar, að gera þennan draum að veruleika. Sú gamla festi kaup á samstæðu í Rúmfatalagernum, hún var send heim (samstæðan) og þá þurfti að koma henni saman. Því verki er ekki lokið enn. Okkur Hallveigu systurdóttur minni tókst þó að koma miðskápnum, sem sjónvarpið á að standa á, saman í gær. Það gekk ekki alveg þrautalaust. Sérstaklega voru skúffurnar og tilheyrandi brautir erfiðar viðureignar. Það var ekki fyrr en búið var að reyna margsinnis að láta skúffubrautirnar renna inn í brautirnar í skáphólfinu, árangurslaust, að við áttuðum okkur á að kantur framan á skápnum sneri öfugt og hindraði því skúffurnar að komast inn í hólfið. Um svipað leyti rann upp fyrir þaulreyndum þýðanda leiðbeininga að stafirnir DL og DR þýddu víst skúffa vinstra megin og skúffa hægra megin og stafirnir CR og CL vísuðu með sama hætti til skápsins. Við vorum hreyknar mjög þegar skúffurnar runnu loks fyrirstöðulaust á sinn stað. Þá kom hálfgerður skelfingarsvipur á Diddu yngstu systur mína sem hafði fylgst álengdar með þessu öllu meðan hún passaði hundinn Fróða Hallveigarson: DVD-tækið kæmist ekki inn í hólfið sem því var ætlað, það væri of breitt eða hólfið of mjótt! Við ákváðum samt að prófa og losuðum lista framan á skápnum af ef ske kynni að þannig mætti troða tækinu inn. Og viti menn, inn komst tækið en ekki munaði nema kannski tveimur millimetrum. Þetta er mjósti munur sem við höfum séð; við erum hreinlega á því að þetta sé mjósti munur sögunnar!

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home