12.2.09

Strákaleikir á Melum upp úr miðri síðustu öld

Eins og lauslega var vikið að í síðasta pistli fengust strákarnir yrirleitt ekki til að vera með í bústangi okkar stelpnanna. Þeir fengu útrás fyrir athafnasemina með öðrum hætti, og glæsilegasti afraksturinn var örugglega "Bílaleikurinn".

Það sem við kölluðum í daglegu tali "Bílaleikinn" var leiksvæði strákanna fyrir neðan ytri girðinguna og ofan veginn sem þá var þjóðvegur og lá milli fjárhúsa pabba og Sigga og svo út milli túnanna á Melum. Þetta var ógróið svæði, hálfgerður melur, jarðvegurinn blanda af sandi, mold og möl. Þarna lögðu strákarnir heilt vegakerfi með ótal beygjum, brekkum og krókum, rétt eins og íslenskir þjóðvegir höfðu verið fram undir þetta. Ég held meira að segja að þarna hafi verið stöku brú. Farkostirnir voru bílar sem þeir smíðuðu úr afgöngum af mótatimbri, sem nóg var af þessi árin því alltaf var verið að byggja ný hús á Melum, ýmist yfir fólk eða fénað. Þetta voru frumstæðir bílar því engin voru hjólin heldur var skriðið með þá á fjórum fótum eftir brautunum. Langur kubbur með einum stuttum fremst var vörubíll, stuttur með einum kubb og smábili fremst en jafn að aftan var jeppi og "drossía" eða fólksbíll var stuttur kubbur með einum enn styttri í miðjunni. Við þennan leik gátu þeir dundað sér tímunum saman, kvöld eftir kvöld, allt sumarið. Við stelpurnar fengum ekki að taka þátt í leiknum en máttum koma einstöku sinnum til að líta yfir svæðið og dást að dugnaði þeirra og hugkvæmni.

Þeir smíðuðu sér líka stundum báta úr tómum olíudunkum og sigldu þeim á tjörninni við fjárhúsin hans Jónasar frænda.

Einu sinni man ég eftir að þeir lögðu undir sig gömlu fjárhúsin í nokkra daga. Þá voru þeir í miklum stríðsleik og vopnin voru aðallega "bombur" sem voru búnar til úr dagblöðum. Blöðin voru brotin líkt og þegar bátur var gerður og þegar "bombunni" var sveiflað kom hvellur.

Ég man líka eftir leik sem þeir fóru í Gústi og líklega Villi Valli, kannski hefur Krummi fengið að fljóta með. Þá fóru þeir í göngur og þurftu endilega að hafa með sér landa eins og karlarnir í sveitinni. Þeir nauðuðu í mömmu þangað til hún lánaði þeim pela og ég þykist muna það rétt að hún hafi að lokum fengist til að setja eina teskeið af þessum görótta drykk, sem pabbi lumaði á, út í vatnið á pelanum.

Ég prófaði að gúgla orðið "bílaleikur" en fann ekkert sem benti til leiks eins og þess sem ég var að lýsa. Ég trúi því samt varla að leikur Melastrákanna hafi verið einsdæmi; hljóta ekki t.d. strákar í þéttbýli á þessum árum, þegar svo mikið var byggt og húsgrunnar óvarðir og opnir jafnvel árum saman, að hafa leikið sér á þennan hátt? Kom leikurinn kannski með sumarstrákum úr Reykjavík?

Web Counter

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home