Þess vegna er ég ári á eftir
Ég hef rekið mig á það að fólk sem ég hitti og kemst svo langt með mig að komast að því að ég varð stúdent 1976 þó að ég sé fædd 1955 ályktar gjarnan sem svo að ég hafi annaðhvort fallið á landsprófi (sem henti margt heiðursfólk á þeim árum) eða um bekk. Seinni skýringin hefði reyndar verið nærtæk; hvernig ég slapp við fall um bekk með mínar stærðfræðieinkunnir er eiginlega ráðgáta, kannski stærðfræðiafrek í sjálfu sér.Nei- ástæðan er önnur. Ég var nefnilega einn vetur heima áður en ég fermdist. Foreldrar mínir höfðu frétt á skotspónum að nú vildi skólastjórinn í Reykjaskóla ekki taka ófermda krakka í skólann. Það er til marks um ægivald þessa skólastjóra yfir börnum jafnt sem fullorðnum í héraðinu að þau komu sér ekki að því að hringja einfaldlega í karlinn og spyrja. Ég dæmdist því til heimasetu veturinn 1968-69.
Og hvað hafði heimasætan svo fyrir stafni? Að sjálfsögðu var ég látin hjálpa til við inniverk og eitthvað úti líka en samt varð töluverður tími afgangs. Hann nýtti ég til hannyrða, prjónaði t.d. á mig peysu, þá fyrstu, meira að segja með kaðlaprjóni og ég man að hún var ljós-skærrauð. Meðan ég prjónaði hlustaði ég oft á kvöldsöguna sem Hjörtur Pálsson las, um starfsmann vopnafyrirtækis sem fékk samviskubit, minnir hún hafi heitið Dagurinn og nóttin, og líka á middagssöguna eftir norsku skáldkonuna Veru Hendriksen og var byggð á Noregskonungasögum, mjög spennandi. Ég heklaði líka heil reiðinnar býsn og hjálpaði Diddu yngstu systur að búa til föt á Barbie.
Síðast en ekki síst undirbjó ég mig af kostgæfni fyrir ferminguna og lærði ALLT sem var sett fyrir. Þannig stendur á því að heilmargar ritningargreinar eru mér enn nokkurn veginn fastar í minni, ég kann slitur úr fjölda sálma og síðast en ekki síst kann ég nokkra passíusálma nokkurn veginn frá upphafi til enda og eitt erindi úr afganginum, eins og presturinn hafði mælt fyrir um.
Þegar að spurningunum kom sá ég fljótt að hin börnin höfðu flest skautað léttar yfir þetta en ég, og kom ekki að sök því prestinum tókst ekki að hlýða yfir nema brot af öllum þessum ósköpum.
Þótt ótrúlegt megi virðast nýttist mér nám vetarins nokkuð vel síðar. Þegar ég kom í íslenskudeildina og þurfti að lesa Ólafssögurnar dúkkuðu upp margar persónur Veru Hendriksen og auðvelduðu mér skilning og utanaðbókarlærdómurinn á Passíusálmunum var góð stoð þegar að þeim kom í náminu.
Svo get ég enn prjónað allra handa kaðlaprjón!
3 Comments:
Sæl kæra systir.
Ó, ég vildi óska að ég ætti þó ekki væri nema örlítið brot af öllu því sem þú útbjóst í höndunum fyrir mig, litlu systur þína. Ég man eftir kjólum og fötum sem þú heklaðir og sennilega líka prjónaðir á barbie og fleiri dúkkur. Ég man þó enn betur eftir öllum dúkkulísufötunum sem þú hannaðir. Rúsínan í pylsuendanum eru svo auðvitað húsin sem þú bjóst til úr pappakössum. Límdir betrekk á veggina og teppi á öll gólf eins og þá þótti svo fínt. Fóðraðir heilu sófasettin með hinum fínustu silkiefnum sem voru afgangs frá saumaskap móður okkar. Til að fullkomna þessar glæsiíbúðir, sem oftast voru á tveimur hæðum, útbjóst þú listaverk á veggina og settir blóm í vasa (stundum tappi af tannkremstúpu) á stofuborðið. Og að lokum, þú kenndir mér líka að standa á haus úti á túni!
Ástarkveðja og haltu áfram að rifja upp gamla tíma,
Didda.
Þetta er skemmtilegt. Ég var nefnilega heima líka einn vetur. Þann vetur fór ég í bréfaskóla og lærði dönsku og svolítið í ensku. Þennan vetur var verið að undibúa sjálfvirku símstöðina í Brú og ég var fengin til að hjálpa ráðskonunni í eldhúsinu, fór yfirleitt á morgnana þegar farið var með mjólkina og labbaði heim á kvöldin. Stundum var veðrið svo vont að ég þurfti að gista. Þessi vetur var mér alltaf minnisstæður því þá var sett upp leikrit af Umf. Dagsbrún og ég fylgdist með æfingunum af áhuga, svo voru þau í tilhugalífinu Jón Hilmar og Sigríður og það þurfti að fylgjast með því líka!!!! Ég segi eins og þú Helga að ég man ótrúlega mikið af því sem ég lærði fyrir ferminguna og ég hef verið að hlusta á Silju lesa Passíusálmana undanfarið og þá hefur ýmislegt rifjast upp. En ég tek undir með Diddu haltu áfram að rifja upp gömlu dagana.
Kveðja,
Ína
Ég gleymdi svo alveg að minnast á að nú verða þær allar fimmtugar á árinu, glæsipíurnar Barbie, Birna og Lilla.
Kveðja,
Ína
Skrifa ummæli
<< Home